Mike Krzyzewski býst við því að Derrick Rose leikmaður Chicago Bulls verði með bandaríska landsliðinu í æfingabúðum í lok júlímánaðar en Bandaríkjamenn verða vitaskuld aðalnúmerið á HM á Spáni sem fram fer dagana 30. ágúst – 14. september næstkomandi.
Í lok júlí skýrist hvaða 28 nöfn Bandaríkjamenn munu vinna með fyrir HM og sagði Krzyzewski að Rose kæmist ekki í liðið nema hann væri alveg heill heilsu en Rose hefur ekki spilað leik í háa herrans tíð sökum meiðsla. Þjálfarinn margreyndi átti síður von á því að Rose myndi sjást í sumardeildum og líklegast væri að hans fyrstu verk eftir meiðslin og aðgerðir væru að reyna að tryggja sér pláss í landsliðinu fyrir HM á Spáni.