23:49
{mosimage}
(Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 13 stig og tók 9 fráköst fyrir Hauka í DHL-Höllinni)
,,Að sjálfsögðu var fínt að ná heimaleikjaréttinum til baka og fínt að fara aftur á Ásvelli í næsta leik. Þar verðum við að ná í sigur og fyrir okkur er það skyldusigur á heimavelli,“ sagði Kristrún Sigurjónsdóttir leikmaður Hauka sem gerði 13 stig og tók 9 fráköst í sigri deildarmeistaranna gegn KR í öðrum leik liðanna í úrslitum Iceland Express deildar kvenna.
KR-ingum hefur gengið vel að Ásvöllum undanfarið en hvað ætla Haukar sér að gera á fimmtudag til að gera heimsókn KR-inga sem óþægilegasta?
,,Það virkaði ekki í síðasta leik að taka rafmagnið af,“ sagði Kristrún í góðu glensi en gerðist öllu alvarlegri. ,,Við þurfum að koma einbeittar til leiks og sýna miklu betri karakter en við gerðum í fyrsta leik og þar duga engin sirkusbrögð,“ sagði Kristrún og viðurkenndi að fráköstin skiptu miklu í þessu einvígi.
,,Ásamt fleiru skipta fráköstin að sjálfsögðu miklu máli í þessu einvígi. Leikmenn KR geta allar skorað þó Hildur hafi átt góðan leik í kvöld. Við verðum engu síður að taka fráköstin og stoppa sem flesta,“ sagði Kristrún sem var ánægð með svæðisvörn Hauka í kvöld.
,,Svæðisvörninvörnin okkar virkaði vel framan af en svo gerðumst við bara ánægðar með forskotið okkar og fórum að verja það en gleymdum að sækja,“ sagði Kristrún sem sat hjá með Haukum í fyrstu umferð á meðan KR fór í oddaleik gegn Grindavík. Telur hún að fyrir vikið séu Haukar með meira bensín á tanknum en KR?
,,Nei, ekki frekar. Hjá KR eru þetta allt leikmenn í hörkuformi svo þetta ætti ekki að skipta máli og því ættu bæði lið að koma brjáluð til leiks,“ sagði Kristrún og vildi ekki kvitta upp á að Haukar hefðu safnað ryði við að sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. ,,Nei í rauninni ekki, liðin eiga að þola það að spila eða hvíla og verða bara að ,,mótivera“ sig samkvæmt því,“ sagði Kristrún Sigurjónsdóttir sem verður í eldlínunni með Haukum á fimmtudag þegar KR og Haukar mætast í sínum þriðja úrslitaleik að Ásvöllum í Hafnarfirði.