Einn reyndasti og fremsti körfuknattleiksdómari Íslands, Kristinn Óskarsson, hefur lagt FIBA dómgæsluna á hilluna en Kristinn hlaut nýverið stöðuhækkun á vinnustað sínum.
Kristinn varð FIBA dómari árið 1997 og síðan þá hefur hann endasenst landanna á milli í Evrópu við dómgæslustörf. Hann segir starf sitt krefjandi og tímafrekt og því verði eitthvað undan að láta en hann mun áfram sinna störfum sínum sem dómari í íslensku deildunum. Alþjóðlegir körfuknattleiksdómarar eyða miklum tíma á sumrin á alþjóðlegum mótum og námskeiðum. Sem dæmi þá var Kristinn 40 daga erlendis yfir sumartímann árið 2005 vegna dómgæslu, en Kristinn ætlar að nota sumrin meira fyrir fjölskylduna og golfið.
Kristinn hefur undanfarin ár séð um skipulagningu endurmenntunar íslenskra dómara og stefnir á að verða FIBA leiðbeinandi (FIBA National Referee Instructor) fyrir íslenska dómara, en enginn gegnir því hlutverki nú. Hlutverk slíkra leiðbeinenda er að miðla dómaraþjálfun FIBA til starfandi dómara á Íslandi, leita að og þjálfa alþjóðleg dómaraefni, styðja og þjálfa íslenska alþjóðadómara og koma að stefnumótun dómaramála í landinu.