spot_img
HomeFréttirKR verður með tvö lið í Höllinni á sunnudag

KR verður með tvö lið í Höllinni á sunnudag

 
Undanúrslitin í Lengjubikar karla fóru fram í kvöld þar sem KR og Snæfell höfðu sigur í sínum leikjum og mætast því í úrslitum keppninnar næsta sunnudag. Tveir hörkuleikir voru í gangi þó stefnt hefði í annað í fyrri hálfleik. Þá er ljóst að KR verður með bæði karla- og kvennalið sín í Laugardalshöll á sunnudag þegar úrslitin fara fram og annasamur dagur framundan hjá Hrafni Kristjánssyni þjálfara liðanna.
Snæfell 101-98 Grindavík
Í Hólminum byrjuðu heimamenn betur en Grindvíkingar nálguðust í síðari hálfleik og úr varð góður lokasprettur. Ryan Amoroso fór mikinn og þá sérlega í fyrri hálfleik en kappinn lauk leik með 33 stig og 15 fráköst. Emil Þór Jóhannsson var þar næstur á bæ með 19 stig. Hjá Grindvíkingum var Andre Smith stigahæstur með 34 stig og 4 fráköst, Páll Axel Vilbergsson var svo með 17 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.
 
Keflavík 88-92 KR
KR valtaði yfir gestgjafa sína í fyrri hálfleik en heimamenn í Keflavík söxuðu forskotið niður í síðari hálfleik og úr varð spennandi lokasprettur þar sem KR hafði þó betur á endanum. Stigahæstur í liði KR var Brynjar Þór Björnsson með 21 stig og Pavel Ermolinskij var með myndarlega þrennu, 15 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Alls voru sjö leikmenn hjá KR sem gerðu 10 stig eða meira í leiknum! Hjá Keflavík var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 25 stig og 10 fráköst. Næstur Sigurði kom Gunnar Einarsson með 19 stig og 3 fráköst.
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Pavel Ermolinskij var með myndarlega þrennu gegn Keflavík í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -