spot_img
HomeFréttirKR útnefnt íþróttalið Reykjavíkur 2016

KR útnefnt íþróttalið Reykjavíkur 2016

Körfuknattleikslið KR var í gær valið íþróttalið Reykjavíkur árið 2016. Tilkynnt var um valið í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í dag. Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 38. sinn sem hátíðin fór fram.

 

Tíu einstaklingar voru tilnefndir til íþróttakonu og íþróttakarls Reykjavíkur þetta árið. Meðal þeirra var fyrirliði KR Brynjar Þór Björnsson. Hann fór fyrir sínu liði sem var íslands- og bikarmeistari á árinu, var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaeinvígisins auk þess sem hann hefur farið frábærlega af stað á yfirstandandi tímabili. Ofan á þetta var hann í landsliðinu sem tryggði sér þátttöku á Eurobasket 2017 annað skiptið í röð. 

 

Íþróttalið Reykjavíkur 2016 var svo körfuknattleikslið KR sem varð íslandsmeistari á árinu, þriðja árið í röð auk þess sem liðið hampaði bikarnum í ár. KR hefur staðið fremst í flokki í meistaraflokki karla síðustu ár og tefla nú fram liði sem gerir tilkall til fjórða íslandsmeistaratitilsins í röð.

 

Tíu einstaklingar og fimmtán lið frá tíu félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2016 við athöfnina. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun en heildarupphæð styrkjanna var 4.500.000 krónur. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.

 

Mynd / Facebook síða Reykjavíkurborgar – Á henni má sjá frá vinstri: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, Brynjar Þór Björnsson, körfuknattleiksmaður í KR, Guðrún Kristmundsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar KR, Þórir G. Þorbjarnarson, körfuknattleiksmaður og Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR

 

 

Fréttir
- Auglýsing -