Það var óneitanlega töluverð spenna í loftinu þegar flautað var til leiks Þórs og KR í lokaleik liðanna þegar liðin mættust í kvöld. Spennan var skiljanleg enda sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta undir.
Það kom fljótlega í ljós að Þórsstúlkur komu helst til of spenntar til leiks og þótt liðið hafi skorað fyrstu körfu leiksins tók við hálf martraðarkenndur kafli það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Strax á fimmtándu sekúndu skoraði Þór en gestirnir svöruðu með 0:18 kafla og staðan þegar fyrsti fjórðungur var hálfnaður var 2:18.
Á meðan gestirnir léku við hvurn sinn fingur gekk ekkert upp hjá Þórsliðinu fór svo að KR vann leikhlutann með sextán stigum 10:26.
Í öðrum leikhluta bættu gestirnir og juku forskotið jafnt og þétt á en áfram seig á ógæfuhliðina hjá Þór. Fór svo að KR vann leikhlutann með sex stigum 13:19 og leiddu í hálfleik með tuttugu og tveim stigum 23:45.
Í fyrri hálfleik var Marín Lind atkvæðamest með 9 stig Heiða Hlín 7 og Eva Wium 6. En í liði gestanna var Perla Jóhannsdóttir best með 17 stig, Chelsea 10 og Hulda Ósk 9.
Eins og leikurinn hafði þróast í fyrri hálfleik bjuggust flestir við því að úrslitin væru svo gott sem ráðin. En annað átti eftir að koma á daginn því undir lokin var leikurinn jafn og spennandi.
Sjá mátti á Þórsliðinu í fyrstu sókn þess í síðari hálfleik að hálfleiksræða Daníels Andra hafi hleypt nýju lífi í leik Þórs. Stelpurnar komu grimmar til leiks og eftir rúmlega tveggja og hálfs mínútna leik hafði Þór skorað 13:0 og munurinn aðeins níu stig 36:45.
Þórsstúlkur sem oftar en einu sinni hafa þurft að vinna upp talsverðan stigamun í síðari hálfleik voru mættar til síðari hálfleiksins staðráðnar í að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Minnstur var munurinn í leikhlutanum sjö stig en mestur þrettán.
Þór vann leikhlutann með níu stigum og var undir með ellefu stigum þegar lokaspretturinn hófst 48:59 og varð að vinna lokakaflann með tólf stigum til að ná sigri.
Þórsliðið gerði hvað það gat til þess að vinna upp muninn en öll sú orka sem farið hafði í að elta gestina tók á undir lokin. Þór vann leikhlutann með sex stigum 21:15 en varð að sætta sig við sjö stiga tap 67:73.
Talsvert vantaði upp á að Þórsliðið sýndi sitt rétta andlit í fyrri hálfleiknum en allt annað var að sjá til þeirra í þeim síðari og fá þær allar klapp fyrir magnaða baráttu.
Framlag leikmanna Þórs: Marín Lind 25/6/4, Hrefna Ottósdóttir 11/5/0, Eva Wium Elíasdóttir 11/8/3, Heiða Hlín Björnsdóttir 9/5/4, Rut Herner Konráðsdóttir 6/16/0, Katla María Magdalena 3/1/1 og Ásgerður Jana Ágústsdóttir 2/1/0. Að auki spiluðu Karen Lind Helgadóttir og Kristín María Snorradóttir en þeim tókst ekki að skora að þessu sinni.
Framlag leikmanna KR: Chelsea Nacole Jennings 25/11/3, Perla Jóhannsdóttir 21/3/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 11/10/3, Lea Gunnarsdóttir 7/8/3, Anna María Magnúsdóttir 6/6/3 og Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 4/8/6.
Sigur gestanna var sanngjarn og liðið lauk keppni í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig og sæti í úrslitakeppninni er þeirra.
Þór lauk keppni í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig þ.e. ellefu sigra og tapleikirnir urðu níu.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh