spot_img
HomeFréttirKR með skotsýningu gegn Breiðhyltingum

KR með skotsýningu gegn Breiðhyltingum

KR tók á móti ÍR í Vesturbænum í kvöld, leikur liðanna var liður í 16. umferð Domino‘s deildar karla. KR var fyrir leikinn í 3-.6. sæti með níu sigra, ÍR hafði sigrað átta leiki og var í 7. sæti. deildarinnar. ÍR mætti með laskað lið í kvöld þar sem bæði Collin Pryor og Roberto Kovac léku ekki með liðinu í dag. Danero Thomas lék með liðinu en hann glímdi við meiðsli þegar ÍR sigraði Þór frá Akureyri í síðustu umferð. Í síðustu viku sigraði KR gegn Þór í Þorlákshöfn en tapaði frestuðum leik gegn Þór á Akureyri. KR endurheimti Jón Arnór Stefánsson og Dino Cinac í sinn leikmannahóp, þeir voru ekki gjaldgengir norður á Akureyri.

Leikurinn byrjaði fjörlega og var fljótlega ljóst að stefndi í mikið stigaskor. 118 stig voru skoruð í fyrri hálfleik og 94 í þeim seinni. KR leiddi að loknum fyrsta, öðrum og þriðja leikhluta og rúllaði svo loks yfir ÍR í lokahleiklutanum og lauk leiknum með 28 stiga sigri heimamanna sem skoruðu 120 stig.

Byrjunarlið KR: Jón Arnór Stefánsson, Matthías Orri Sigurðarson, Brynjar Þór Björnsson, Mike Craion og Dino Cinac.

Byrjunarlið ÍR: Georgi Boyanov, Evan Singletary, Hafliði Jökull Jóhannesson, Sæþór Elmar Kristjánsson og Trausti Eiríksson.

Gangur leiks:

Leikurinn byrjaði ansi fjörlega og eftir fimm og hálfa mínútu var staðan 21-15 fyrir heimamenn. Borche tók leikhlé eftir opinn þrist frá Jóni, fimm þristar höfðu ratað ofan í hjá KR á þessum tímapunkti. KR leiddi 32-29 eftir fyrsta leikhluta. Sóknarleikur liðanna beggja var vel smurður, leikkerfi gengu vel upp og skotin að detta – sóknarleikurinn góður en lítið um varnir.

Þegar annar leikhluti var hálfnaður var KR með 73% skotnýtingu og 69% hittni úr þriggja stiga skotum. Þó leiddi liðið einungis með þremur stigum, 48-45, ótrúlegt. KR leiddi 63-55 eftir bráðfjörugan fyrri hálfleik. Heimamenn voru að hitta og frákasta betur en gestirnir. ÍR-liðið passaði hins vegar betur upp á boltann og refsaði fyrir tapaða bolta hjá heimamönnum.

Það var mikill hiti í byrjun þriðja leikhluta og var Jón Arnór fljótlega kominn með sína fjórðu villu og tók sér sæti á varamannabekknum. Um miðjan þriðja leikhluta var forskot KR komið upp í tólf stig og Borche tók leikhlé. 79 stig fengin á sig á 25 mínútum tæpum hreinlega of mikið. KR leiddi með tíu stigum, 87-77, að loknum þriðja leikhluta.

Í lokafjórðungnum sprakk blaðran hjá ÍR og KR sigraði fjórðunginn með átján stigum.

Tölfræðin lýgur ekki:

Leikmenn KR virtust ekki geta klikkað á skoti í dag og sigraðu þeir einnig í frákastabaráttunni. Blanda sem er vænleg til sigurs. Það væri fróðlegt að vita hveru margir leikir hafa tapast hjá liðum sem skjóta 61% af gólfinu (71% 2ja, 54% 3ja). ÍR passaði vel upp á boltann og með betri varnarleik hefði þessi leikur haldist spennandi lengur, sem er jákvætt miðað við að það vantaði tvo byrjunarliðsmenn (þrjá með Sigga Þorsteins) í kvöld.

Hetja leiksins: Brynjar Þór Björnsson

Brynjar, Dino, Helgi, Kristófer og Jakob léku allir frábærlega í kvöld hjá heimamönnum og Georgi var öflugastur hjá gestunum ásamt Evan. Brynjar fær nafnbótina hetja leiksins þar sem hann skoraði úr sjö af ellefu skotum sínum. Allar skottilraunirnar komu fyrir aftan þriggja stiga línuna og Brynjar gaf einnig sex stoðsendingar í leiknum.

Gott byrjunarlið leikmanna sem léku ekki í kvöld:

Björn Kristjánsson, Roberto Kovac, Collin Pryor, Sigurður Þorvaldsson og Sigurður Þorsteinsson léku ekki með í dag. Það væri hægt að gera eitthvað með þetta byrjunarlið.

Skotsýning í fyrri hálfleik:

Eins og kom fram hér að ofan var KR með 69% 3ja stiga nýtingu um miðjan annan leikhluta. Þá var liðið með 80% 2ja stiga nýtingu og 73% skotnýtingu alls. ÍR var einnig með frábæra 2ja stiga nýtingu en þristarnir duttu ekki jafn oft (5 af 17 undir lok hálfleiks). Sannkölluð skotsýning og 118 stig samtals skoruð í hálfleiknum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -