spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaKR lagði Snæfell í spennuleik í Hólminum

KR lagði Snæfell í spennuleik í Hólminum

Snæfell og KR áttust við á leikdegi 1 í 1. deild kvenna í kvöld. Liðunum er spáð misjöfnu gengi í vetur, Snæfell þurfa að láta sér 7. sætið duga á meðan KR mun berjast um laust sæti í Subwaydeildinni. Það mátti því búast við gögnutúr í garðinum fyrir KR.

Tveir flottir þjálfarar mætast dalamaðurinn Baldur Þorleifsson á móti Herði Unnsteinssyni sem gerði garðinn frægan í Borgarnesi á árum áður, honum til halds og trausts var Borgnesingurinn og Hólmarinn Rúnar Ólason.

Hólmarar voru án Cheah sem er ameríski leikmaður liðsins, eins og fleiri lið þá eru pappírarnir fastir hjá UTL á þessum tímapunkti.

Liðin skiptust á körfum í byrjun, leikurinn var ágætlega hraður og voru KR að tapa boltanum klaufalega í sókninni en bættu það upp með fjórum þriggja stiga körfum, þar af þrjár frá Perlu. Snæfellingar voru að opna KR vörnina ágætlega en hittu ekki nægilega vel.

Síðust 4 mínúturnar í 2. leikhluta voru eign Snæfells og var það fyrirliðinn, Rebekka Rán, sem fór fyrir liði Snæfells á 12-3 kafla. Staðan í hálfleik 50-41 fyrir heimakonur.

Í byrjun þriðja leikhluta gekk liðunum illa að skora þá helst Snæfell en fyrsta karfan utan af velli kom þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. KR læsti í vörninni og tóku harðar á heimakonum. Leikhlutinn endaði 9-17 fyrir KR og leikurinn í járnum.

Leikurinn var jafn alveg þangað til 9 sekúndur voru eftir af 4. leikhluta en þá skoraði Violet Morrow 2 af sínum 32 stigum í leiknum. Violet var illráðanleg í loka fjórungnum og áttu heimakonur engin svör við henni. Rebekka Rán fékk tilraun til að jafna leikinn en boltinn vildi ekki niður úr erfiðu færi og þar við sat og 76 – 78 sigur KR staðreynd.

KR með frábæran sigur á löskuðu liði Snæfells. Það verður gaman að sjá þessi lið berjast um sæti í deild þeirra bestu. Það var ekki mikill munur á þessum liðum og Snæfell á Cheah inni.

Margir ljósir punktar í báðum liðum og var til að mynda Hulda Ósk leikmaður KR frábær í teignum, skoraði 17 stig og spilaði á 4 villum í tæpar 10 mínútur. Eins og áður sagði var Violet Morrow frábær í liði KR með 32 stig, 18 fráköst og 11 sóttar villur.
Hjá Snæfell voru Rebekka (25 stig), Preslava (26 stig) og Ylenia (16 stig, 7 frák., 12 stoð. og 9 stolna) í sérflokki.

Deildin byrjar að krafti og leikurinn í kvöld vonandi endurspeglar spennuna og skemmtunina sem verður í 1. deild kvenna í vetur. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -