Minnibolti drengja hjá KR er Íslandsmeistari í körfuknattleik 2011 en Vesturbæingar voru með tvö lið í úrslitamótinu! Finnur Freyr Stefánsson hefur þjálfað hópinn frá 5-6 ára aldri og árangurinn lætur ekki á sér standa.
Á mótinu skiptu KR-ingar hópnum sínum upp í tvö jöfn lið A og B en liðin voru ekki getuskipt og sagði Finnur í samtali við Karfan.is að B-hópurinn væri s.s. Íslandsmeistari.
,,Í raun var það KR B liðið sem vann þó svo að það hafi ekki verið stillt upp veikara en hitt. Það lið hóf leik í D-riðli og vann alla sína leiki í vetur, fór upp um einn riðil í hverju móti og endaði með því að vinna A-riðlinni á lokamótinu. Hitt liðið endaði í 3. sæti á mótinu en Keflavík varð í öðru. Sameiginilegur árangur KR liðanna í vetur var 30 sigrar í 32 leikjum. Annað tapið var í innbyrðisleiknum um helgina en Keflavík náði svo að vinna síðasta leikinn á mótinu,“ sagði Finnur sáttur með árangurinn.
Leikir B-hóps KR á lokamótinu í minnibolta drengja:
KR – Keflavík 35-28
KR – ÍR 52-27
KR – Stjarnan 46-27
KR – KR 46-34
Minniboltinn leikur einnig ár uppfyrir sig í 7. flokki karla þar sem þeir hófu leik þetta tímabilið í D-riðli og nú á dögunum voru þeir aðeins í framlengingarfjarlægð frá því að komast á úrslitamótið í A-riðli en máttu bíða ósigur gegn Grindvíkingum.
Mynd/ Þórður Þórarinsson: Finnur Freyr ásamt KR hópnum sem fór mikinn þetta árið í minnibolta drengja.