KR tók í kvöld á móti Stjörnumönnum í Domino’s deild karla. Fyrir leikinn voru KR-ingar efstir í deildinni með fullt hús stiga, en gestirnir úr Garðabæ sátu í þriðja sæti. Fátt hefur virst geta stöðvað Vesturbæinga í upphafi leiktíðar, og því forvitnilegt að sjá hvort Garðbæingar gætu reynst þeim Þrándur í Götu.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn mun betur og komust í 12-5 snemma leiks. Jarrid Frye og Dagur Kár slógu upp skotsýningu hjá gestunum og skoruðu samtals 27 stig í fyrsta leikhluta. Hjá heimamönnum dró Darri Hilmarsson vagninn með 10 stig í fyrsta fjórðung, en KR-ingar voru mjög ólíkir sjálfum sér í leikhlutanum. Stjörnuvörnin var afskaplega þétt og komust menn eins og Michael Craion lítt áleiðis. Eftir fyrsta leikhluta höfðu gestirnir 13 stiga forskot, 20-33, og virtust vera á fínu róli.
Það var hins vegar allt annað KR-lið sem kom til leiks í öðrum fjórðung. Stjörnumenn komust hvorki lönd né strönd gegn sterkri vörn heimamanna, á meðan svarthvítir röðuðu stigunum niður á hinum enda vallarins. Brynjar Þór Björnsson setti niður nokkra góða þrista, og Finnur Magnússon var sterkur í teignum. Leikur Stjörnumanna var hins vegar ansi hreint klaufalegur á köflum, og virtist einfaldlega hafa slokknað á þeim milli leikhluta. Svo fór að KR vann annan leikhluta 36-17, og leiddi því 56-50 í hálfleik.
Stjörnumenn rönkuðu við sér í þriðja leikhluta og fóru að stríða heimamönnum á ný. Jarrid Frye spilaði vel, og vörn gestanna virkaði aðeins betri en hún hafði verið í öðrum leikhluta. Það var í raun alger klaufaskapur í gestunum að jafna ekki leikinn, eða komast yfir, því Stjörnumenn gerðu sig oft sekir um mistök er þeir gátu þjarmað enn meir að heimamönnum. Fyrir það var þeim oftar en ekki refsað á hinum enda vallarins. Fyrir lokaleikhlutann skildu þrjú stig liðin að, staðan 75-72 fyrir KR.
Fjórði leikhluti varð hins vegar aldrei spennandi. Stjörnumenn einfaldlega sprungu á limminu, og verður sóknarleik þeirra í fjórða leikhluta einungis lýst með einu orði. Óðagot. Kæruleysisleg mistök komu á færibandi hjá gestunum, og slíkt kann ekki góðri lukku að stýra gegn jafnsterku liði og KR. KR-ingar refsuðu Stjörnumönnum ítrekað fyrir óðagotið og voru fljótlega komnir í 15 stiga forystu. Þá forystu voru þeir aldrei líklegir til að láta af hendi og unnu Vesturbæingar enn einn leikinn. Lokatölur 103-91.
Stigaskor heimamanna var nokkuð jafnt, en þeir róteruðu sex mönnum stærstan hluta leiksins, og rufu þeir allir tíu stiga múrinn. Þeirra stigahæstur var Brynjar Björnsson með 23 stig, en Michael Craion skoraði 22 eftir erfiða byrjun, og tók auk þess 10 fráköst. Hjá Stjörnumönnum var Jarrid Frye stigahæstur með 28 stig, og Dagur Kár skoraði 22.
Umfjöllun / EKG
Mynd / JBÓ