spot_img
HomeFréttirKR hafði betur gegn Fjölni

KR hafði betur gegn Fjölni

 

KR hafði sigur gegn Fjölni í gær í æfingaleik liðanna í DHL-Höllinni, 84-55. KR eygir sæti í Domino's deild kvenna á næsta ári á meðan að Fjölnir var á engan hátt sannfærandi. Bæði lið söknuðu erlendra leikmanna en hjá KR sat Kristbjörg Pálsdóttir sömuleiðis á bekknum, en hún er að jafna sig eftir minni háttar meiðsli.

 

Fjölnir stóð í KR í fyrsta leikhluta að mestu vegna framlags eins leikmanns, en Berglind Karen skoraði 13 af 15 stigum síns liðs á fyrstu tíu mínútunum. Perla og Ástrós deildu álaginu betur meðal heimamanna, en þær skoruðu saman 18 af 22 stigum KR í leikhlutanum. Þó að Grafarvogsstelpurnar næðu að takmarka stigaskor KR-inga í öðrum leikhluta þá virtust þær ekki heldur getað skorað og lokuðu fyrri hálfleiknum með aðeins 9 stig gegn 16 stigum Vesturbæjarstelpnanna. Staðan í hálfleik 38-24, KR í vil.

 

Það batnaði lítið í seinni hálfleiknum og heimaliðið lauk leiknum mjög sannfærandi, 84-55. Þær höfðu tæplega 7 stiga forystu að meðaltali í hverjum leikhluta og Fjölnisstúlkur virtust ekki hafa nein svör við sókn þeirra svart- og hvítklæddu. Ástrós Lena Ægisdóttir átti frábæran leik, en hún skoraði 20 stig og var reffileg í vörn. Berglind Karen Ingvarsdóttir skilaði mestu fyrir Fjölni, en hún lauk leik með 23 stig og nýtti reynslu og kænsku sína til að skora með ýmsu móti.

 

Það sem stóð upp úr var að KR stúlkurnar virtust þindarlausar og refsuðu Fjölni reglulega með hraðaupphlaupum eftir tapaða bolta, en Perla Jóhannsdóttir átti 7 stolna bolta í leiknum. Fjölnisstúlkur virðast ekki vera komnar í almennilegt hlaupaform eða voru í það minnsta ekki hlaupaglaðar í kvöld.

 

Fjölnir verður að hugsa sinn gang og vonast til að erlendur leikmaður þeirra, McCalle Feller, sé nægilega góð til að rífa liðið upp og fá þær til að spila af meiri krafti. Þær þurfa í það minnsta meira fútt í liðið sitt. KR stelpur líta út fyrir að vera reiðubúnar fyrir tímabilið af þessum leik að dæma; vel spilandi, sóknarleikurinn góður inni í teig og utan hans og vörnin þeirra er snögg að refsa mistökum hjá hinu liðinu. Þær munu eflaust vera í færi til að fara aftur í upp í deild hinna bestu ef þær forðast meiðsli og satt að segja gæti erlendur leikmaður reynst óþarfur. Allur er varinn góður, samt sem áður. 

 

Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -