spot_img
HomeFréttirKR gerði góða ferð í Grindavík

KR gerði góða ferð í Grindavík

Undirritaður mætti á “tvíhöfða” í kvennaboltanum í Mustad-höllinni í Grindavík í kvöld.

Grindavík – KR í Dominosdeildinni og svo strax á eftir, Grindavík-b á móti Fjölni.

Dominos-gular hafa átt ansi erfitt uppdráttar í vetur og áttu fyrir leikinn ennþá eftir að ná í sinn fyrsta sigur en þær hafa komist nærri því í nokkur skipti.  Þær komu upp í fyrra og tefla fram ungum og efnilegum stelpum að mestu og ákváðu að byrja tímabilið eingöngu með einum útlendingi.  Fyrir nýliða í kvennaboltanum þá er væntanlega ansi mikilvægt að hitta beint í mark í Kanavali og ekki er hægt að fullyrða hvernig fyrsti útdráttur gekk því sá leikmaður fékk fljótlega betra tilboð og var samningurinn við hana keyptur upp og hún yfirgaf skerið.  Í hennar stað kom Kamilah Jackson sem hefur átt flottan feril í Evrópu og kunni greinilega mikið fyrir sér í íþróttinni en eitthvað virtist hún hafa verið góð við sjálfa sig frá því að síðasta tímabili lauk því hún mætti með ansi mörg aukakíló utan á sér….  Hún spilaði inn í en þar sem Grindavíkurstelpur áttu í hinu mesta basli með að koma boltanum upp þá tók Jóhann Árni þjálfari þá ákvörðun að taka bakvörð í staðinn og Jordan Airess Reynolds kom í staðinn.  Hún er fanta leikmaður og hefur verið flott en það á ekki af Grindavíkurstelpum að ganga, hún fékk þungt höfuðhögg í öðrum leiknum á móti Haukum og beitti sér lítið eftir það í jöfnum leik og þurfti svo að hvíla í þriðja leiknum á móti Snæfelli í síðustu umferð.

Allt stefndi í að gular myndu mæta með fullskipað lið í kvöld en til að bæta gráu ofan á svart þá meiddist einn besti leikmaður liðsins í vetur, Ólöf Rún Óladóttir í leik með unglingaflokki um daginn og sleit krossbönd…..  Ólöf Rún var búin að vera með 11,7 stig og 9,4 í framlag, næst framlagshæst og hennar tímabili því lokið svo enn herðist róðurinn úr innsiglingunni í Grindavík…..

Lykilmenn Grindavíkur eru áðurnefnd Jordan, Bríet Sif Hinriks og Hrund Skúla.  Jordan er með 21,5 stig, Bríet með 10,7 og Hrund með 8,3.   Þegar litið er til framlags sem er kannski viturlegra en að horfa á berstrrípað stigaskorið, þá sést að Jordan er hæst með 29, Hrund með 8,4 og Elísabet Ýr Ægis kemur svo næst með 6,4 punkta.  

KR-stelpur hafa verið nokkuð flottar í vetur, töpuðu mjög naumt í hörkuleik í 3. umferð á móti þreföldum meisturum síðasta tímabils, Val og hafa síðan tapað aftur naumt fyrir þeim og töpuðu svo frekar óvænt fyrir Keflvíkingum á útivelli.  Þær eru því með 8 sigra og 3 töp en Benedikt þjálfari er maður sem vill steikina sín mikið eldaða og veeeeel kryddaða og stefnir alltaf í hæstu hæðir!  Lið KR er þannig mannað að þær ætla sér að vinna titil eða titla í vetur en þar fer fremst í flokki hin frábæra Danielle Rodriquez.  KR teflir fram Bosman leikmanni, Sanja Orazovic sem er næst stigahæst á eftir Danielle.  Besti Íslendingurinn í vetur hefur verið Hildur Björg Kjartansdóttir en hún er næst framlagshæst KR-inga, með 17 að meðaltali en Danielle er þar líka hæst með 23,8 í framlag.

KR var á undan upp úr blokkunum og eftir 5 mínútur voru þær komnar með 8 stiga forskot, 5-13.  Jóhann lét sínar stelpur heyra það, fannst þær vera flatar til að byrja með en það gefur augaleið að slíkt getur ekki talist góð uppskrift fyrir vinningslaust lið.  Gular svöruðu kallinu og tveir flottir þristar í röð komu og leikurinn jafn.  KR svaraði jafnharðan á sama máta og munurinn því aftur kominn í 8 stig, 11-19.  Meiri kraftur var kominn í heimastúlkur þarna og má segja að þær hafi farið illa að ráði sínu að minnka ekki muninn en víti m.a. fóru forgörðum og eftir fyrsta fjórðung munaði 9 stigum, 15-24.

Vonir mínar um jafnan leik virtust ætla fjúka með leifunum af veðrinu og vindinum síðan í gær en KR byrjaði 2. leikhlutann 0-9 og áttu gular í hinu mesta basli með að ná góðum skotum á körfuna.  KR virtist ætla stynga af  en það er seigt í gulum og tveir flottir þristar breyttu stöðunni í 13-11 í leikhlutanum og munurinn eingöngu 7 stig en KR átti lokaorðið og staðan þar með 28-37 í hálfleik.

Grindvíkingar breyttu uppleggi sínu í seinni hálfleik en Viktoría Rós Horne og Natalía byrjuðu inn á í seinni hálfleik í stað Bríetar og Elísabetar.  Natalía tók boltann upp í stað Jordan og Viktoría nýtti tækifærið og setti tvo flotta þrista niður og allt annað Grindavíkurlið í gangi!  Eftir hálfan 3. fjórðung þá var munurinn eingöngu 4 stig og hörku leikur í gangi.  Stöllurnar sem byrjuðu komu þá út af og eitthvað virtist byrjunarliðið frá því í fyrri hálfleik ekki ná eins vel saman því KR kom muninum fljótlega upp í 10 stig aftur en 9 munaði fyrir lokafjórðunginn, 51-60.

Sléttu tölurnar eru greinilega ekki gulra en þær byrjuðu 4. fjórðunginn eins og 2. og KR gerði í raun út um leikinn með 2-10 byrjun sinni og staðan orðin 53-70 og leikurinn þannig séð búinn, eingöngu spurning með lokamuninn sem var óþarflega mikill eða 23 stig, 53-76.  2 stig skoruð í einum fjórðungi er ekki beint góðar tvíbökur……

Eins og fram kemur í viðtölum þá er allt annað að sjá til Grindavíkurliðsins en lengi vel voru þær í hörkuleik á móti KR en breiddin er ekki mikil og máttu þær ekki við margnum í kvöld.  Jordan Reynolds er góður Kani og gæti eflaust gert meira en það er kannski uppleggið hjá Jóhanni Árna, að útlendingurinn klári ekki allar sóknir.  Hún hefði samt alveg getað nýtt skot sín betur en yfir höfuð er þetta góður leikmaður en hún endaði með 16 í framlag í kvöld.  Sú eina íslenska sem fór yfir 2-stafa á þeim vettvangi var Sigrún Elfa með 12.

Hjá KR voru fjórir leikmenn nokkuð jafnir og var framlagið svona hjá þeim: Hildur Björg (28), Danielle (26), Sanja (19) og Margrét Kara (16).  Það blasir við að það munar um að fá svo marga leikmenn með svo gott framlag og eigum við ekki að segja að þar liggi munurinn í kvöld?

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik :

Fréttir
- Auglýsing -