spot_img
HomeFréttirKorter í leik: Óvíst með Dempsey en verður í treyju

Korter í leik: Óvíst með Dempsey en verður í treyju

Nú eru sléttar 15 mínútur þangað til fjórir leikir rúlla af stað í Domino´s deild karla. Karfan.is tók púlsinn á hópunum fyrir slaginn, hverjir eru með, hverjir eru að glíma við smávægileg meiðsli og verða mögulega fjarverandi og þar fram eftir götum.
 
 
Grindavík-KR: Allir klárir og með í kvöld segir Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR. Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur sagði alla sína menn klára í slaginn að frátöldum Hilmi Kristjánssyni sem væri meiddur og yrði ekki í búning í kvöld. * Uppfært, Finnur Atli Magnússon er í borgaralegum klæðum í kvöld hjá KR en hann fékk högg á annað hnéð í bikarleiknum gegn Tindastól og er að jafna sig.
 
Keflavík-Njarðvík: Sigurður Ingimundarson mætir með alla sína sveina til leiks nema Eysteinn Bjarna Ævarsson sem er að glíma við meiðsli.
 
Snæfell-Þór Þorlákshöfn: Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells vonaðist til að allir sinir menn yrðu með í kvöld en veikindi hafa hrjáð leikmannahóp Snæfells en þjálfarinn reiknar þó með að allir verði slarkfærir.
 
Tindastóll-ÍR: Bjarni Magnússon þjálfari ÍR sagði alla sína menn nokkuð heila og að ástandið á hópnum yrði jafnvel enn betra eftir kjötsúpuna í Staðarskála. Israel Martin er með fullan hóp en staðan á Myron Dempsey er ekki alveg á hreinu sökum handarmeiðsla, Dempsey verður í búning en óvíst með aðkomu hans að leiknum.
  
Fréttir
- Auglýsing -