Við dembum okkur á söguslóðir því efsta mynd með þessar frétt og sú næsta hér fyrir neðan eru teknar af körfuboltavelli sem er á Straumnesfjalli upp af Aðalvík í Sléttuhreppi. Þar á árum áður var bandaríski herinn með radarstöð um tíma eða c.a. 1953-1956. Þarna var íþróttahús fyrir hermennina og þar leyndist þessi, örugglega í sína tíð, hinn ágætasti körfuboltavöllur. Þessar myndir eru teknar árið 2011 og standa körfurnar enn þrátt fyrir ekkert aðhald öll þessi ár og varamannabekkirnir eru líka enn inni í salnum! Við þökkum henni Sigurbjörgu kærlega fyrir þessa stoðsendingu af Straumnesfjalli.
Þessi myndarlega karfa finnst inni í svefnherbergi hjá aðstoðarþjálfara bikarmeistara Stjörnunnar, Snorra Erni Arnaldssyni. Hans orð í tölvupóstinum hvar myndin var viðhengd voru: „Það var bara til Cavs þegar ég keypti mér,“ – sannar þetta hið fornkveðna að öll höldum við með Cleveland inn við beinið… eða hvað?
„Hún má muna sinn fífil fegurri þessi karfa,“ sagði Björn Leósson fyrrum mótastjóri KKÍ og körfuknattleiksdómari en hann sendi þessa mynd af ansi tötralegri körfu sem finna má á Stokkseyri.