18:33
{mosimage}
Eftir rúma viku munu ungir Framsóknarmenn kjósa sér nýjan formann á þingi þeirra á Hótel Heklu. Mörgum kann kannski að þykja skrýtið að skrifað sé um pólitík á karfan.is en þetta formannskjör á svo sannarlega heima á síðum karfan.is. Tveir frambjóðendur eru í kjöri til formanns og hafa þau bæði stundað körfuknattleik af miklum móð. Þetta eru þau Bryndís Gunnlaugsdóttir og Einar Karl Birgisson.
Bryndís sem er 27 ára ólst upp í Grindavík og lék með félaginu upp alla yngri flokkana og nokkur ár í meistaraflokki. Eftir það hefur hún svo leikið með ÍR, Breiðablik, Ármanni og Fjölni nú síðast. Þá lék hún 4 U18 landsleiki auk þess að hafa verið öflug í félagsmálunum og síðast en ekki síst skrifað fyrir karfan.is. Utan körfuboltans starfar hún sem lögfræðingur hjá PriceWaterhouseCoopers.
Einar Karl er 29 ára Skagamaður sem lék með Skagamönnum upp yngri flokkana og upp í meistaraflokk. Hann lék einnig með Valsmönnum og svo síðast með Létti í 2. deildinni. Þá lék hann 11 unglingalandsleiki. Í dag er hann framkvæmdastjóri hjá Re/max Senter.
Bryndís og Einar Karl eru ekki einu körfuboltamennirnir í Framsóknarflokknum, Axel Kárason sem lék með Tindastól og Skallagrím var formaður ungra Framsóknarmanna í Skagafirði lengi og virkur í starfi SUF. Sigurður Þorvaldsson leikmaður Snæfells var á lista hjá flokknum fyrir síðust Alþingiskosningar og Heiðar Lind Hansson sem lék með Skallagrím er formaður ungra Framsóknarmanna í Borgarfirði.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á Hótel Heklu þann 8. júní en eitt er ljóst, það verður körfuboltaunnandi sem tekur við stjórn SUF.