spot_img
HomeFréttirKörfuboltaleikur stendur yfir í 40 mínútur

Körfuboltaleikur stendur yfir í 40 mínútur

 

 

Stjörnumenn fengu heimsókn frá Breiðholtinu í annarri umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. ÍR-ingar lentu ekki í miklum vandræðum með Snæfellinga í fyrsta leik á meðan Stjarnan þurfti framlengingu til að knýja fram sigur gegn sprækum Akureyrar-Þórsurum norðan heiða.

 

Þáttaskil:

Varnarleikur liðanna var meira áberandi en nokkurn tímann sóknarleikurinn. Stigaskor fór afar hægt af stað en ÍR-ingar með Matthías Orra í góðum gír leiddu 11-20 eftir fyrsta fjórðung. Gestirnir bættu svo við forskotið í byrjun annars leikhluta og komu sér í 11-29. Þeir spiluðu frábæra vörn, lokuðu alveg á landsliðsfyrirliðann og Stjarnan gat ekki keypt körfu! Það er í raun erfitt að skýra það út en einhvern veginn tókst heimamönnum á undraverðan átt að koma sér inn í leikinn og höfðu nagað forskotið niður í 29-36 fyrir hálfleik. Samt var t.a.m. þriggja stiga skotnýting þeirra 3/19 eða 16% í hálfleik og aðeins þrír leikmenn búnir að skora!

 

Aftur byrjuðu gestirnir betur í þriðja leikhluta. Hinn silkimjúki Hjalti Friðriks raðaði niður skotum og stemmningin öll þeirra megin. En sagan endurtekur sig eins og sagt er og Stjörnumenn áttu aftur fínan lokasprett og má segja að einkum vörnin hafi smollið og búið til auðveldar körfur fyrir þá. Staðan 46-51 fyrir lokaleikhlutann. Það var svo allt í járnum allan síðasta fjórðunginn. Eftir nokkrar stigalausar mínútur og mikinn taugatitring setti Marvin þrist og kom sínum mönnum í 52-51. Undirritaður hafði á tilfinningunni að þetta væri mikilvægasta karfa leiksins og það reyndist rétt, gestirnir komust ekki yfir eftir þetta. Marvin setti annan þrist skömmu síðar og Arnþór tvo til viðbótar, auðvitað allt saman líka risastórir þristar, og heimamenn sluppu með 63-58 sigur.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki:                  

Það er sjaldan talað um það í tölfræðiúttekt að körfuboltaleikur stendur yfir í 40 leikmínútur og hver fjórðungur í 10. Ef hver fjórðungur hefði aðeins verið 7 mínútur í kvöld hefðu ÍR-ingar pakkað heimamönnum saman! Bæði lið buðu upp á 20% þriggja stiga nýtingu en það var meira áberandi hjá heimamönnum enda tóku þeir 40 slík skot á móti 15. Að lokum verður að benda á að sigurliðið hafði mikið betur í frákastabaráttunni, 52 á móti 34.

 

Mikilvægustu körfurnar:

Fyrrnefndir þristar frá Marvin og Arnþóri voru svakalegir. Marvin var stigalaus í hálfleik og Arnþór skoraði aðeins 6 stig í leiknum en hann valdi tímann til að skora mjög gaumgæfilega!

 

Kjarninn:

Tölfræðin lýgur aldrei og auðvelt að benda á að fráköstin hafi skilið á milli í kvöld. Á löngum köflum leit þetta rosalega vel út fyrir gestina en það þarf að spila allar mínútur hvers fjórðungs á fullu. Það er kannski einkenni góðra liða að þrátt fyrir ströggl þá skila þau sínu einmitt þegar mest á ríður og enda ofan á að lokum.

 

Stjörnumenn horfa væntanlega til þess að þeir geta svolítið mikið betur sóknarlega en í kvöld. Varnarlega var leikurinn ásættanlegur af þeirra hálfu. Þeir geta prísað sig sæla að ná stigunum því ÍR-ingar sýndu að þeir gætu vel komið á óvart í vetur og náð langt – þeir þurfa bara að átta sig á því að hver fjórðungur eru heilar 10 mínútur.

 

 

Athygliverðir punktar:

 

  • Áhorfendur urðu vitni að vandræðalegri liðskynningu fyrir leik en kerfið í húsinu er væntanlega bilað – þetta er ekki nógu gott, ekki boðlegt fyrir móður allra íþrótta. Hvet herra Garðabæ til að koma þessu í lag fyrir næsta leik!
  • Það var frábær mæting í Ásgarð í kvöld! Margfalt betri en í byrjun móts síðustu ár – er árangri landsliðsins að þakka?
  • Sífelldar tilraunir til að koma Víkingaklappinu af stað misheppnuðust í hvert einasta skipti þrátt fyrir góða mætingu – enda allir orðnir geðveikir á þessu. Öllu má ofgera, hættið þessu rugli og förum sparlega með þetta!

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Tomasz Kolodziejski

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -