spot_img
HomeFréttirKomið að leiðarlokum hjá Magnúsi

Komið að leiðarlokum hjá Magnúsi

 
Stjörnumenn sjá á eftir Magnúsi Helgasyni og skónum hans upp á hilluna fyrir komandi átök í Iceland Express deildinni. Magnús sagði í samtali við Karfan.is að nú væri það komið að körfuboltanum að sitja á hakanum þar sem hann er nýbúinn að eignast sitt annað barn og kominn í krefjandi starf.
,,Það sem ég tek mér fyrir hendur vil ég gera eins vel og ég get, hvort sem það er fjölskyldan, vinnan, körfuboltinn eða eitthvað annað. Ég er ekki að sjá fyrir mér að geta sinnt þessu öllu eins vel og ég get, þannig að það er karfan sem situr á hakanum,“ sagði Magnús sem var með 7,7 stig og 4,8 fráköst að meðaltali í leik með Garðbæingum á síðasta tímabili.
 
,,Það er auðvitað ekkert auðvelt að segja skilið við það sem maður hefur gert á hverjum degi síðustu 15 árin en ég hef verið að hugsa svolítið um þessa ákvörðun eftir að ég tók hana og tjáði Stjörnumönnum frá henni. Ég held að þetta sé hárrétt ákvörðun því undanfarin 3-4 tímabil sem ég hef spilað hef ég verið að drepast í hásinunum og náðu verkirnir hátindi fyrir jólin í fyrra. Ég finn það núna eftir þær æfingar sem ég hef mætt á, á undirbúningstímabilinu og í hlaupum í sumar, að þær eru ekkert að verða betri með aldrinum og manni langar helst að geta notað þær í ellinni, í golfinu og í annarri heilsurækt,“ sagði Magnús sem annars er bjartsýnn á tímabilið hjá Stjörnumönnum.
 
,,Þar er sami kjarni og í fyrra, menn eru reynslunni ríkari og eru hungraðir í að bæta fyrir vonbrigðin síðan í úrslitakeppninni í vor þegar við duttum út á móti Njarðvík í 8 liða úrslitum. Liðið hefur að skipa tvo af allra bestu sóknarmönnum deildarinnar, Justin og Jovan. Jafnframt hafa þeir Fannar, einn besta miðherja deildarinnar. Þeir verða í toppbaráttunni í vetur og eigum við ekki að spá því að þeir munu spila til úrslita við KR sem eru með gríðar sterkan mannskap ásamt því að vera búnir að fá frábæran þjálfara, Hrafn Kristjáns,“ sagði Magnús sem fyrst gerði garðinn frægan með Þór Akureyri áður en hann gekk í raðir Stjörnunnar í Garðabæ.
 
Ljósmynd/ Magnús Helgason í leik með Stjörnunni á síðasta tímabili.
 
Fréttir
- Auglýsing -