10:10:26
Kobe Bryant leiddi sína menn í LA Lakers til sigurs gegn Houston Rockets í nótt, 96-102. Leikurinn var spennandi og skemmtilegur en Lakers léku án Lamar Odom sem var í banni eftir að hafa stigið upp af bekknum þegar kom til ryskinga á milli Lakers og Trail Blazers í síðasta leik.
Kobe mætti þar Ron Artest, einum besta varnarmanni deildarinnar, en þeir hafa marga hildina háð í gagnum tíðina. Í þetta skiptið mátti Artest sín lítils, sérstaklega á lokasprettinum, en Kobe gerði 18 af 37 stigum sínum í fjórða leikhluta. Oft mátti litlu muna að upp úr syði á milli þeirra félaga en Artest gerði lítið úr deilunum eftir leikinn.
„Við erum hreint ekki vinir úti á vellinum, en eftir leikinn, eða eftir tímabilið getum við rætt málin ef við hittumst í æfingaleik eða eitthvað þess háttar. Þetta er alls ekki persónulegt.“
Bryant var hins vegar enn í miklu stuði eftir leikinn og var óhræddur við að senda pillur á Artest. „Þetta var nú ekki mikil barátta. Ég einfaldlega flengdi hann í kvöld. Við höfum oft tekist á og hann hefur stundum haft betur. En nú var það ég sem hafi betur.“
Á meðan töpuðu Boston fyrir Dwayne Wade og félögum í Miami Heat. Wade tók af skarið fyrir Heat á lokakaflanum eftir að hið meiðslum hrjáða meistaralið Boston hafði saxað verulega á forskot þeirra og sigldi sínum mönnum í örugga höfn.
Kevin Garnett og Rajon Rondo eru frá vegna meiðsla og það er meira en Boston þolir því þrátt fyrir að Leon Powe hafi átt góða innkomu í stöðu Garnetts var Stephon Marbury úti á þekju og missti marks úr öllum skotum sínum áður en hann var tekinn útaf of Eddie House settur inn í staðinn. Wade, sem er á ótrúlegu skriði síðan eftir Stjörnuhelgina, var með 32 stig og 7 stoðsendingar og er með rúmlega 37 stig og 10 stoðsendingar að meðaltali í síðustu 10 leikjum.
Miami eru nú ekki langt frá því að komast fram úr Atlanta Hawks, en liðinu munu að öllum líkindum mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og eru að klást um heimaleikjaréttinn.
Hawks hafa hins vegar unnið þrjá leiki í röð og áttu líka góðan leik í nótt þar sem þeir bundu enda á 12 leikja sigurgöngu Utah Jazz í nótt með góðum heimasigri, 100-93. Joe Johnson var með 31 stig og 9 stoðsendingar og Josh Smith var með 22 stig og 12 fráköst.
Deron Williams var fremstur meðal jafningja hjá Jazz með 20 stig og 9 stoðsendingar.
Hér eru úrslit næturinnar:
Chicago 79
Orlando 107
Toronto 106
Philadelphia 115
New Orleans 109
Washington 98
Utah 93
Atlanta 100
Final
Boston 99
Miami 107
New York 116
Detroit 111
Memphis 79
Minnesota 104
LA Lakers 102
Houston 96
Oklahoma City 96
Denver 112
Dallas 93
Portland 89
New Jersey 112
Golden State 116
ÞJ