KKÍ innleiðir nýtt mótakerfi – Biðjast afsökunar á óþægindum

Líkt og fjölmargir hafa tekið eftir síðustu vikur og daga er Körfuknattleikssambandið þessa dagana að innleiða nýtt mótakerfi fyrir deildir og flokka íslensks körfuknattleiks, en líkt og tekið er fram í fréttatilkynningu frá þeim í dag hefur hún verið tímafrek og gengið hægar en vonast var eftir. Í þessari sömu fréttatilkynningu biðst sambandið forláts á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.

Enn frekar segir í fréttatilkynningunni að samhliða þessu nýja mótakerfi sé unnið að því að setja upp nýja síðu fyrir sambandið og að sú síða muni bjóða upp á ýmsar lausnir tengdar mótakerfinu. 

  • Lifandi tölfræði er auðvelt að nálgast hérna, en það er einnig tengill á forsíðu kki.is. Einnig er hægt að skoða leiki eftir dagsetningum þarna. Þarna má finna lifandi tölfræði Subway og 1. deilda ásamt VÍS bikars.
  • Staða í deildum og leikjadagskrá meistaraflokka má finna hér. Unnið verður áfram að framsetningu upplýsinga.
  • Venslasamningar eru núna allir skráðir í gegnum mótakerfið. Upplýsingar um það má finna hérna.
  • Mótakerfinu fylgir app, þar sem hægt er að fylgja liðum og sjá þá leikjadagskrá þeirra liða sem þú fylgir. Allir áhugamenn geta náð í appið og skráð sig og þannig fylgt sínu liði í gegnum appið. Þar er einnig hægt að nálgast tölfræði og stöðu í deildum.
  • Hægt er að tengja leikjadagskrá þíns liðs inn í dagatalið þitt. Þetta virkar fyrir Google, Apple, Outlook, Office 365 og ýmis önnur dagatöl. Við hvetjum ykkur til að kynna þetta fyrir foreldrum og áhangendum, þar sem þetta getur verið þægileg leið til að sjá leikjadagskrá. Það virkar líka vel með leikjabreytingum, þar sem þær uppfærast inni í dagatalinu fljótlega eftir að leikjabreyting er skráð í mótakerfið.
  • Staða í yngri flokkum og leikjadagskrá má finna hér. Unnið er ötullega að því að leikjadagskrá birtist í dagsetningaröð, í stað þess að birtast í umferðaröð.
  • Innleiðing rafrænnar leikskýrslu hefst vonandi seinna á þessari leiktíð, en horft verður til meistaraflokka og elstu flokka í deildarkeppni yngri flokka í fyrsta kasti. Það gefur færi á því að fylgjast með lifandi stöðu leikja þar sem engin lifandi tölfræði er tekin, eins og í 2. deild karla og eldri yngri flokkum.

Þá segir sambandið að fjöldi annarra atriða, stór sem smá séu á verkefnalista þess og verði unnið að þeim áfram með Gameday og ef einhver er með ábendingar eða hugmyndir um það sem betur má fara, þá sé það velkomið.