spot_img
HomeFréttirKjartan Atli var sáttur með uppskeruna að lokinni deildarkeppni "Það eina sem...

Kjartan Atli var sáttur með uppskeruna að lokinni deildarkeppni “Það eina sem skiptir mann máli er að vinna næsta leik”

Álftnesingar lögðu Hött í kvöld í lokaumferð Subway deildar karla, 63-54. Eftir leikinn var ljóst að Álftanes endaði í 6.sæti deildarinnar og Höttur í 8. sætinu.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Kjartan Atla Kjartansson þjálfara Álftaness eftir leik í Forsetahöllinni.

Þetta var mjög afslappað í kvöld og það kemur svo sem ekkert á óvart, en það kom mér hins vegar svolítið á óvart var að þrátt fyrir afslappað andrúmsloft tókst þínum mönnum að spila bara fantafína vörn meira og minna allan leikinn…

Já, orkustigið var gott. Stundum er það bara þannig að körfuboltaguðirnir eru ekki í skapi fyrir langskot.

…þeir voru það ekki í kvöld!

…einmitt, þannig að við þurftum að finna aðrar leiðir í þessum leik og mér fannst við ná að finna þær og úrslitin eru staðfesting á því…við fundum leiðir þó þetta hafi ekki verið fallegt.

Þið fundið nógu mikið af stigum þarna til að klára þetta. En ég verð að spyrja þig – þó ég sé persónulega ekkert sérstakur áhugamaður um þessa pælingu – en ég sé fyrir mér að þú hafir fengið allnokkur skilaboð frá Garðbæingum og átt nokkur samtöl núna í vikunni við Garðbæinga?

Nei, ég fékk nú miklu fleiri skilaboð frá Króknum! Hvatningu frá Króknum. En það kom aldrei neitt annað til greina hjá okkur en að koma í þennan leik á fullu…

Já…þið vilduð vinna þennan leik…

Já, og það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er ég frekar einföld manneskja, og mér finnst sjötta sætið mikið betra en sjöunda, við vildum líka enda á sigri og þakka áhorfendum sem hafa verið með okkur í allan vetur fyrir stuðninginn og vildum spila fyrir okkar fólk og við fundum smá mótíveringu í því. Svo má líka segja að þessi umræða hafi verið svolítið bjöguð, maður elst upp í þessari íþrótt og það eina sem skiptir mann máli er að vinna næsta leik og allir leikmennirnir mínir eru þannig víraðir, og kannski allir leikmenn yfir höfuð eru þannig. Þú getur ekki sagt við hópinn þinn ,,Heyrðu við ætlum ekki að vinna þennan leik“! Við nálguðumst þetta bara eins og hvern annan leik.

Jájá eðlilega, en þú finnur kannski pínu lítið til þess að hafa þessi áhrif á þitt uppeldisfélag ef ég má kalla Stjörnuna það…

Við getum kallað það það…en hvaða félög þetta voru skipti okkur kannski engu máli en auðvitað er það svolítið skrýtið að vera með örlög annarra í sínum höndum…og það fyrir bæði lið. Við þjálfararnir töluðum um það hérna eftir leikinn að þetta var bara mjög skrýtið…skrýtið að gíra okkur upp í þetta.

Einmitt…að hafa það svolítið í huga að það hefur meiri áhrif á 2 önnur lið hvernig fer en ykkar lið…

Já miklu meiri! Við vorum heldur ekki í neinni aðstæðu til að velja okkur andstæðinga…það er fyrst að koma í ljós núna hálftíma eftir að leik lýkur hér hverja við fáum.

Já og það mun vera Keflavík sem verða andstæðingar ykkar…hvernig leggst það í þig?

Bara vel! Við erum að fara að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur myndi ég segja. Þetta er heitasta liðið akkúrat núna og það verður bara gaman að fara og mæta Keflvíkingum. Ég er tengdur Keflavík, pabbi minn er Keflvíkingur og ég er alinn upp við það að fara á völlinn á Sunnubrautinni…

…þetta er voðalega persónulegt allt saman hjá þér…!

Já! Þannig að það verður gaman að mæta þeim, svo er Hörður auðvitað líka fyrrum leikmaður Keflavíkur. Svo er Pétur Ingvars fyrsti þjálfarinn minn…þannig að það eru miklar tengingar þarna.

Bullandi tengingar!

Jájá, svo þetta verður mjög skemmtilegt og líka bara gaman fyrir okkur, við erum að komast í úrslitakeppnina…þetta er fyrsta árið okkar í úrvalsdeild og í úrslitakeppni og gaman að fara á þetta sögufræga svið sem Blue-höllin er. Ég er bara nokkuð ánægður með niðurstöðuna úr deildarkeppninni. Við komum sem nýliðar inn í deildina og náum 6. sætinu og þar með úrslitakeppnissæti þrátt fyrir ýmis meiðsli og skakkaföll á tímabilinu.

Akkúrat. Ég er svo einfaldur og mikill amatör að síðasti leikur hefur alltaf rosalega mikil áhrif á mig…og maður horfði þarna á Remy Martin í síðasta leik Keflvíkinga gegn Njarðvík fara gersamlega á kostum…og ég hugsaði með mér að það væri ekkert hægt að vinna þetta Keflavíkurlið! Keflvíkingar verða pottþétt Íslandsmeistarar, það á enginn séns í þá….EN þeir töpuðu í kvöld…

Já…en Remy var ekki með skilst mér…ég er svo sem ekki alveg búinn að kynna mér þetta…en hann er frábær leikmaður og þeir eru einhvern veginn vel samstilltir og þekkja hver annan mjög vel og þetta verður verðugt verkefni.

Heldur betur. Að lokum, Wilson var ekki með í kvöld, hvað er að frétta af honum?

Hann hefði sennilega verið með okkur ef þessi leikur hefði verið einhver úrslitaleikur. En við viljum bara ná honum góðum og við erum vongóðir um að hann verði með okkur í fyrsta leik úrslitakeppninnar.

Fréttir
- Auglýsing -