spot_img
HomeFréttirKatalónía sendi stóra bróður í sumarfrí

Katalónía sendi stóra bróður í sumarfrí

Álftnesingar fengu gesti að austan í kvöld í lokaumferð Subway-deildarinnar. Liðin eru að ,,berjast um“ 6. sæti deildarinnar en satt best að segja skiptir engu máli hvort liðin hafni í sæti 6 eða 7 því það er með öllu óljóst hvaða lið munu skipa sæti 2 og 3 – sennilega þó eitthvað sem endar á vík. Hattarmenn gætu litið svo á að best sé að tapa leiknum en þá verður 8. sætið nokkuð örugglega þeirra og deildarmeistarar Vals án vafa andstæðingurinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Sumum þykir það nú sennilega gersamlega fáránlegt plan…kannski að við spyrjum Viðar út í þetta eftir leik? En hvað segir Kúlan um þessi mál?

Kúlan: ,,Bíddu…skiptir þessi leikur einhverju rassgatsmáli fyrir liðin? Nei. Það lið sem lýgur því betur að sér að mikilvægt sé að vinna leikinn vinnur leikinn. Punktur“ Sagði Kúlan og undirritaður veltir fyrir sér hvað hann gæti hafa gert blessaðri Kúlunni…

Byrjunarlið

Álftanes: Giga, Haukur, Dúi, Hössi, Ville

Höttur: Knezevic, Jessen, Adam, Trotter, Buskey

Gangur leiksins

Það var býsna afslöppuð stemmning í Forsetahöllinni í kvöld og framgangan í stigaskori eftir því. Buskey var næst því að vera með meðvitund inn á vellinum en um miðjan fyrsta fjórðung var staðan 5-4! Lítið eitt fleiri stig rötuðu á töfluna seinni hlutann og allt hnífjafnt eftir einn fjórðung, 14-14.

Það verður að segja liðunum til hróss að varnarleikur beggja var bara nokkuð góður og kannski ósanngjarnt að tala um meðvitundarleysi í því samhengi. Það hélt áfram í öðrum leikhluta en heimamenn slysuðust til að setja 2 þrista niður í röð og komu sér átta stigum yfir, 26-18, um miðjan leikhlutann. Það var hins vegar engin flugeldasýning í gangi og Hattarmenn minnkuðu muninn niður í 1 stig fyrir hálfleik og leikar stóðu 26-25. Ville var kominn með 10 stig fyrir heimamenn og Buskey 9 fyrir gestina en liðin buðu upp á 31% og 25% skotnýtingu í heildina í fyrri hálfleik.

Það var jafnræði með liðunum fyrstu mínútur þriðja leikhluta en heimamenn hitnuðu þá lítið eitt og Hössi smellti tveimur þristum í röð. Dúi bætti í kjölfarið við 5 snöggum stigum fyrir Álftnesinga og 10 stiga múrinn frægi risinn, staðan 39-29 og 15 mínútur eftir af leiknum. Heimamönnum tókst að halda í þessa forystu og leiddu 46-35 fyrir lokafjórðunginn.

Bowen kom heimamönnum í 50-35 með tröllatroði snemma í fjórða leikhluta og vafalaust margir þungir á brún í nágrenninu yfir því. Hattarmenn héldu þó áfram af krafti, minni spámenn fengu mínútur í kvöld og komust vel frá sínu.  Nefna mætti Óliver Ólafsson í liði gestanna sem barðist vel og setti 7 stig í leiknum og gestirnir minnkuðu muninn í 7 stig, 58-51, þegar 3:40 lifðu leiks. Nær komust austanmenn hins vegar ekki og má segja að Dúi Þór Jónsson hafi lokað tímabilinu fyrir uppeldisfélagið sitt, Stjörnuna, með þristi þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af leiknum. Lokatölur urðu 63-54 í svo sem ágætis leik þrátt fyrir afslappað andrúmsloft og lítið í húfi fyrir bæði lið.

Menn leiksins

20 leikmenn komust á blað í kvöld og segir það kannski talsvert um leikinn. Ville var atkvæðamestur heimamanna með 12 stig og tók 5 fráköst. Eysteinn átti einnig flottan leik með 11 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar gegn uppeldisfélagi sínu.

Hjá gestunum var Buskey mest áberandi með 13 stig og 4 fráköst.

Kjarninn

Álftnesingar enda í 6. sæti deildarinnar og það verður seint talinn lélegur árangur hjá nýliðum. Undirritaður óskar Kjartani og Álftnesingum til hamingju með það. Ljóst er orðið að það eru Keflvíkingar sem verða andstæðingar Álftnesinga í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og spennandi að sjá hvernig það þróast.

Hattarmönnum vill undirritaður einnig óska til hamingju með sætið í úrslitakeppninni. Liðið mun mæta deildarmeisturum Vals í fyrstu umferð og einhverjir myndu segja að Valsliðið henti Hetti betur en Suðurnesjaliðin. Undirritaður þorði næstum því að væna Viðar um það í viðtali eftir leik að þetta hafi verið ósk liðsins, að enda í 8. sæti og fá Val sem andstæðing en Viðar blés að sjálfsögðu á svoleiðis hugleiðingar og lagði áherslu á að hans menn ætli sér meira en að ,,vera bara með“ í úrslitakeppninni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -