spot_img
HomeFréttirKjartan Atli tekur stigin tvö fegins hendi

Kjartan Atli tekur stigin tvö fegins hendi

Álftnesingar lögðu Breiðablik eftir framlengdan leik í Forsetahöllinni í kvöld í 14. umferð Subway deildar karla, 106-100.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Kjartan Atla Kjartansson þjálfara Álftnesinga eftir leikinn.

Mig langar til að opna þetta með þeirri fullyrðingu að ég hef bara aldrei séð jafn skrýtinn leik! rosalega skrýtin stemmning í húsinu, örugglega lélegasta mætingin í allan vetur…það er einhver janúarkuldi í fólki?

Já…var ekki landsleikur í handbolta líka…?

Horfir einhver á handbolta? Hvað er það…?

…en þetta var skrýtinn leikur, orkustigið í húsinu var furðulegt. Við byrjuðum á því að setja allt ofan í…

…já þrátt fyrir allt fór allt ofan í þarna í byrjun…

…já og svo var allt ofan í hjá þeim…þannig að þetta var bara mjög skrýtið. Mér leið aldrei eins og við værum með þá þó við værum svona mikið yfir þarna í byrjun. Þetta var bara furðulegt og minnti mann stundum á fyrstu deildina. Á tímabili vorum við með Cedrick, Dúa, Brynjar, Steinar og Ragnar inn á þannig að þetta er allt leikmenn sem hafa verið hérna og verið með okkur í fyrstu deildinni þannig að það var smá fyrstu deildar ,,væp“ yfir þessu eins og krakkarnir segja.

Akkúrat. En varstu orðinn smeykur þegar þeir náðu að jafna leikinn þarna í fjórða leikhluta?

Ég veit ekki hvort maður finni þær tilfinningar endilega..að verða smeykur…mín upplifun af þjálfarastarfinu er að maður er bara að hugsa um næstu sókn og næstu vörn þannig að maður upplfir leikinn kannski á aðeins kaldari hátt ef maður getur sagt sem svo. Ég vildi bara ráðast á leikinn.

Mín tilfinning var sú að það hefði orðið bara eitthvað stórslys hefðuð þið tapað þessum leik. Þeir komast t.d. aldrei yfir í leiknum nema kannski þarna í blábyrjun…

Já…þeir eru bara yfir í 1 og hálfa mínútu í öllum leiknum…við í 42:17! Stórfurðulegt. Þeir hitta úr 22 þriggja stiga skotum í þessum leik úr 50 tilraunum og eru með 44% nýtingu…að við höfum unnið leikinn er bara frábært. Við erum svo að skjóta 17 af 32 úr vítum! Tölfræðin segir okkur að ef þú færð 66 stig á þig úr 50 skotum þá þarftu að vera ansi skilvirkur annars staðar varnarlega til að éta niður prósentur til að geta unnið leikinn. Við komum svo auðvitað inn í þennan leik laskaðir.

Já…það er einmitt næsta mál. Hvað er að frétta af heilsufarinu á öllum þessum mönnum?

Það hefur bara verið mikið álag. Við höfum verið með stutta róteringu og höfum eiginlega verið einum færri allt tímabilið, svo hefur þetta bara verið rosalega skrýtin vika. Ville og Douglas hafa ekkert getað æft, Eysteinn er veikur og Dino hefur verið meiddur í smá tíma. Þannig að nú erum við bara að horfa á þennan bikarleik á móti Grindavík og vonum það besta. En við náðum í 2 stig í kvöld og eftir mánuð eða svo þá verður það sem stendur upp úr ofan á það að við fengum frábæra frammistöðu frá strákum sem lítið hafa verið að koma við gólfið.

Það er einmitt það sem væri kannsi helst hægt að taka út úr þessum leik…en segðu mér, ætlar þú að horfa á þennan leik aftur?

Já, ég horfi alltaf á leikina okkar aftur…! En núna fer maður bara beint í það að pæla í bikarleiknum gegn Grindavík sem er núna strax á sunnudaginn…það er svolítið tricky að gíra sig upp í leiki eins og þennan í kvöld þar sem menn hafa haft hugann svolítið við Grindavík og bikarinn og kannski útskýrir það eitthvað væpið í kvöld eða stemmninguna hjá leikmönnum. En…Haukur Helgi hendir í 33 stig, Bowen með 23/10 og Hörður ofboðslega aggresívur og hann sem skaut okkur af stað í leiknum…svo fengum við orkumikla frammistöðu hjá Steinari og Ragnari í kvöld. Þetta er eins og ég sagði fyrir leikinn að þetta eru strákarnir sem eru með mestu lætin á bekknum, nú var komið að þeim sem framar eru í róteringunni að endurgjalda þá alúð og þann stuðning. Þetta var liðssigur og Blikaliðið er alveg sprækt, Árni Elmar átti frábæran leik og Keith er erfiður að eiga við og Ívar frábær þjálfari…þannig að við göngum héðan stoltir!

Þið takið þessum tveimur stigum fegins hendi…eftir mjög skrýtin leik!

Já, fegins hendi..og nú ertu mögulega kominn með fyrirsögnina!

Sagði meistari Kjartan…og fyrirsögnin varð í þessa áttina!

Fréttir
- Auglýsing -