spot_img
HomeFréttirÁlftnesingar hörkuðu inn undarlegustu 2 stig Íslandssögunnar

Álftnesingar hörkuðu inn undarlegustu 2 stig Íslandssögunnar

Nýliðar Álftaness sitja einir og sér í 5. sæti Subwaydeildarinnar sem stendur. Það eru mikil forréttindi enda deila flest önnur lið sæti með mörgum öðrum liðum! Liðin í 2.-4. sæti eru einungis með tveimur stigum meira en nýliðarnir og topplið Vals aðeins fjórum stigum meira svo segja má að Álftnesingar standi í harðri toppbaráttu.  

Gestirnir á Álftanesi í kvöld, Blikar, eru aftur á móti í botnbaráttu. Þeir kveiktu smá vonarneista á nýju ári með sigri í Ólafssal en slökktu hann jafnharðan í næsta leik með dapri frammistöðu gegn vængbrotnum Hattarmönnum. Erfitt er að vera bjartsýnn fyrir hönd Breiðabliks eins og sakir standa…en hvernig sér Kúlan málin þróast?

Kúlan: ,,Blikar falla. Punktur. Og ef einhver er í vafa þá slátra nýliðarnir leiknum í kvöld 93-64“.

Byrjunarlið

Álftanes: Bowen, Dúi, Hörður, Haukur, Ragnar

Breiðablik: Zoran, Jordan, Snorri, Sölvi, Árni

Gangur leiksins

Það var frekar fámennt í ýmsum skilningi í Forsetahöllinni í kvöld og undarleg stemmning í húsinu. Óvenju fáir áhorfendur, enginn forseti, enginn Everage og Eysteinn hvergi sjáanlegur. Ville, Wilson og Stipcic voru á staðnum en í borgaralegum klæðum. Heimamenn létu þetta hins vegar ekkert á sig fá í byrjun leiks og leiddu með helmings mun 18-9 eftir fimm mínútur. Það fór saman að allt fór ofan í hjá Álftnesingum og varnarleikur Blika var eins og gatasigti. Allt var á sömu bókina lært næstu fimm og heimamenn búnir að negla niður 36 stigum gegn 22 eftir 10 mínútna leik!  

Eftir tæplega 4 mínútna leik í öðrum leikhluta var útlit fyrir að úrslit væru hreinlega ráðin þar sem heimamenn voru komnir 21 stigi yfir, 49-28, og Ívar tók leikhlé. Gestirnir réttu heldur betur úr kútnum eftir það, varnarleikur liðsins lagaðist mikið en einnig má benda á lögmál meðaltalsins – heimamenn snöggkólnuðu í skotunum. Blikar settu næstu 10 stig og þegar góðar 3 voru til leikhlés tók Kjartan leikhlé í stöðunni 49-38.Áhlaup gestanna hélt áfram þrátt fyrir það og Rauði riffillinn hleypti ítrekað af. Ótrúlegur snúningur í leiknum og forskot Álftnesinga aðeins 7 stig í hléi, 52-45.

Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik en eftir 2 þrista í röð frá Jordan stóðu leikar 62-59, enginn munur og Kjartan tók leikhlé þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af þriðja. Liðin skiptust á stuttum sprettum eftir það og enn var þriggja stiga munur að leikhlutanum loknum, 70-67.

Heimamenn settu fyrstu 4 stig fjórða leikhluta og maður var svolítið að bíða eftir því að þeir myndu slíta sig aftur frá gestunum og klára leikinn. Haukur Helgi reyndi að láta það raungerast með þristi þegar 5 mínútur voru eftir og setti stöðuna í 77-71. Keith Jordan bað viðstadda um að bíða aðeins með fullyrðingar og jafnaði leikinn með 2 þristum í kjölfarið, enn 4 mínútur eftir og jafnt 77-77! Haukur og Bowen svöruðu því að bragði, settu hvor sinn þristinn og 3 stig til viðbótar af vítalínunni, staðan 88-80 og aðeins 49 sekúndur eftir. Blikar eiga hrós skilið fyrir að bíða ekki eftir því að þessar sekúndur fjöruðu út eins og allir aðrir í húsinu! Gestirnir smelltu í tvo þrista í næstu sóknum og minnkuðu muninn í 88-86! Dúi fékk færi á að klára leikinn á línunni, klúðraði báðum en tók sjálfur frákastið! Þá var komið að Hauki að klára leikinn á línunni en setti bara seinna skotið. Blikar áttu 8 sekúndur til að freista þess að jafna…og Riffillinn rauði gerði það bara! Framlenging.

Snorri fór útaf með fimm villur snemma í framlengingunni og Zoran hafði þurft að víkja af velli af sömu ástæðu seint í fjórða svo gestirnir voru orðnir þunnskipaðir. Heimamenn settu fyrstu 4 stig framlengingarinnar og héldu frumkvæðinu að þessu sinni! Þegar 1:40 var eftir var að vísu aðeins einnar körfu munur, 98-95, en allt kom fyrir ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu Kópavogspilta. Lokatölur urðu 106-100 í einstaklega undarlegum körfuboltaleik.

Menn leiksins

Haukur Helgi dró heldur betur vagninn fyrir sína menn í kvöld, endaði með 33 stig og tók 14 fráköst. Bowen gerði einnig mjög vel og fyllti í skörðin í liði Álftnesinga, lauk leik með 23 stigum og 10 fráköstum. Margir minni spámenn liðsins gerðu sömuleiðis mjög vel í kvöld og það er kannski það sem stendur upp úr að lokum.

Rauði riffillinn var skotviss í kvöld, henti niður 26 stigum en tók einnig 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Keith Jordan var þó atkvæðamestur með 35 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Kjarninn

Það var rosalega skrýtin stemmning í Forsetahöllinni í kvöld. Óspennandi framlengdur leikur…er það ekki þversögn? Undirritaður setur þennan leik í ,,óþarfi að horfa á aftur-flokkinn“ og Kjartan Atli verður örugglega einn um að geraþað. Stigin urðu í það minnsta eftir í húsinu og um það snýst jú málið. Fyrir utan stigin stendur helst upp úr góð frammistaða minni spámanna Álftnesinga – annað verður ekki lesið úr leik kvöldsins.

Blikar lentu 21 stigi undir eftir 14 mínútur! Körfubolti er leikur áhlaupa og allt það en þetta er alltof djúp hola. Segja má að restin af leiknum hafi hins vegar verið ljómandi góð hjá gestunum, menn lögðu sig fram, gáfust aldrei upp og voru í raun ótrúlega nálægt því að stela sigrinum. Tilfinningin var sú að það væri aðeins tímaspursmál hvenær heimamenn myndu ganga frá leiknum en það hafðist ekki fyrr en eftir framlengdan leik. Engin stig í Kópavoginn er þó niðurstaðan og útlitið dökkt.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -