spot_img
HomeFréttirKjarnorkuhiti, jafnvel frá Íslandi, varð okkur að falli

Kjarnorkuhiti, jafnvel frá Íslandi, varð okkur að falli

Íslenska karlalandsliðið mætti liði Kosovo í kvöld í forkeppni að undankeppni fyrir aðalkeppnina sem er heimsmeistaramótið 2023! Undarlegt og enn undarlegra er að Ísland mætti aðeins með leikmenn sem nokkurn veginn máttu vera að því að spila. Þrátt fyrir það er liðið þrælgott enda fullt af frábærum leikmönnum sem við eigum. Á Ísland séns?

Spádómskúlan: Kúlan er uppblásin af þjóðarstolti og er fullviss um öruggan 79-96 Íslands!

Byrjunarlið Íslands:  

Tryggvi, Arnar, Gunnar, Hörður, Hjálmar

Gangur leiksins

Fyrir utan flottan þrist frá Herði í byrjun leit íslenska liðið ekki út fyrir að kunna neitt í körfu fyrstu mínúturnar. Shawn Jones var silkimjúkur sóknarlega en grjótharður varnarlega og var að slátra Tryggva alls staðar á vellinum. Staðan var 16-6 eftir 6 mínútur og stefndi í eintóm leiðindi. Tryggvi var vægast sagt ekki að finna sig, klúðraði troðslu, fékk dæmdan á sig ruðning og Jones skoraði á hann að vild. Kári Jóns og Óli meistari Óla héldu hins vegar heiðri landsins á lofti og héldu löndum sínum á floti. Staðan var 22-13 eftir fyrsta.

Shawn Jones virtist hafa orðið fyrir meiðslum í fyrsta leikhluta Íslendingum til mikillar gleði og lék kappinn ekki meira í leiknum. Það var svo sem ekkert nema sanngjarnt enda maðurinn ekki meiri Kosovo-búi en undirritaður. Nafni hóf í ofanálag annan leikhluta með körfu góðri og útlitið bjartara. Heimamenn þurftu þá að asnast til að byrja að raða niður þristum á okkar menn og þegar tæpar 4 voru til hálfleiks stóðu leikar 33-23. Þá fyrst fóru okkar menn að sína kunnáttu sína í körfubolta og Íslendingar tóku frábæran sprett. Fremstir í flokki var umtalaður Tryggvi Snær og Arnar Björnsson var alveg geggjaður! Staðan var 35-34 í hálfleik og allt í sóma.

Arnar og Tryggvi héldu uppteknum hætti í þriðja og Íslendingar náðu 35-39 forystu. Heimamenn hittu ekki hafið (sem er reyndar skiljanlegt í Kosovo) í seinni hluta annars leikhluta en það var eins og skrúfað væri frá aftur hjá þeim og allt datt. Berisha og Hajrizi voru heitastir (ef einhverjum er ekki sama) en kannski hefði vörn okkar manna mátt vera grimmari. Um miðjan leikhlutann var staðan 51-46 sem virkaði ekki svo illa á mann því það var gersamlega allt ofan í hjá heimamönnum. Arnar spilaði áfram mjög vel fyrir landann og Garðbæingurinn snjalli, Tommi Hilmars, jafnaði leikinn í 57-57 undir lok leikhlutans. Það var hábölvað og í takt við leikhlutann að heimamenn svöruðu að bragði, 60-57 var staðan fyrir lokaleikhlutann.

Síðasti leikhlutinn var jafn og skemmtilegur framan af. Íslendingar komust aftur yfir 60-61 eftir fallegustu sókn leiksins en liðið gersamlega tætti vörn Kosovobúa í sig! Undirritaður hvetur þá sem ekki sáu leikinn að smella sér á ruv.is bara til að sjá þetta augnayndi! Heimamenn héldu áfram að hitta eins og svín, ekki síst Berisha óvinur okkar, en Arnar og Hörður svöruðu hinum megin. Um miðjan leikhlutann var allt jafnt, 66-66 og útlit fyrir háspennu. Þvi miður þróuðust mál ekki á þann veg, Kosovar voru eins og evrópskt kjarnorkuver með hreinorkustimpil frá Íslandi og skitu okkur út áfram, enn að mestu með þristum. 9 stig í röð komu þeim í 75-66, 2 og hálf eftir og leikurinn allt í einu nánast búinn. Ljóst var að við máttum ekki fá stigi meira á okkur á þessum tímapunkti og það kom líka á daginn. Þrátt fyrir ævintýralega þrista frá Herði og Kári undir lokin var það enn einn þristurinn auk 2 stiga körfu frá heimamönnum sem skilaði heimasigri. Lokatölur 80-78 en lokamínútan var því miður ekki spennandi þó lokatölurnar gefi það e.t.v. til kynna.

Menn leiksins

Tryggvi byrjaði afleitlega en endar sem maður leiksins okkar megin. Hann setti 16 stig og tók 12 fráköst og lokaði teignum vel eftir að Jones meiddist. Kári setti svo 21 stig og Arnar 20.

Dardan Berisha var bestur Kosovomanna, setti 18 stig með 6 þristum úr 13 skotum.

Kjarninn

Þegar talið var upp úr pokunum var munurinn aðeins 2 stig. Heimamenn voru með 40% þriggja stiga nýtingu sem er býsna gott og á köflum leið manni eins og þeir gætu bara ekki andskotast til að klikka úr skoti! Undirritaður hefur enga hugmynd um hvort einhverja hafi vantað í lið Kosovo en hjá okkur vantaði nánast alla helstu hestana. Við slátrum þeim heima – ekki síst ef eitthvað bætist í hópinn…og ,,Kosovobúinn“ Jones má alveg sleppa því að vera með.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Einkunnir úr leiknum

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -