spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaLeggur skóna á hilluna

Leggur skóna á hilluna

Miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna 35 ára gamall. Staðfestir Sigurður þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.

Sigurður leggur skóna á hilluna sem leikmaður Vestra, en hann er að upplagi frá svipuðum slóðum, þar sem hann lék á sínum tíma upp yngri flokka KFÍ á Ísafirði. 18 ára gamall hélt hann til Keflavíkur árið 2006 þar sem hann lék til ársins 2011, en ásamt þeim lék hann einnig fyrir Grindavík, ÍR, Hött og Tindastól í efstu deild á Íslandi. Þá var hann um árabil atvinnumaður hjá sterkum liðum í Svíþjóð, Frakklandi og í Grikklandi. Til Vestra kom hann svo fyrir síðasta tímabil og lék í 2. deildinni í vetur

Sigurður var í sjö skipti í úrvalsliði efstu deildar á Íslandi, lykilleikmaður í fjórum Íslandsmeistaratitlum (Keflavík 2008, Grindavík 2012/2013 og síðast Tindastól 2023) Á 12 ára landsliðsferil sínum frá árinu 2007 til 2019 lék Sigurður 58 landsleiki.

Í samtali við Körfuna sagði Sigurður ástæður þess að hann setji punktinn fyrir aftan núna þá að hann sé orðinn sáttur og saddur. Enn frekar sagði hann að hann langaði að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni.

Karfan óskar Sigurði til hamingju með frábæran feril og velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.

Fréttir
- Auglýsing -