Einn leikur var í 1. deild karla í kvöld en KFÍ fékk Hauka í heimsókn. Ísfirðingar sem byrjuðu af krafti unnu sanngjarnan sigur 82-69 en þeir náðu mest 17 stiga forystu.
Ísfirðingar leiddu allan tímann en þeir komust í 9-0 og sýndi það öllum þeim sem horfðu á leikinn að þeir voru tilbúnir í þennan mikilvæga leik.
Haukar náðu aðeins aðeins að malda í móinn og minnkuðu muninn í fimm stig 15-10. Ísfirðingar skoruðu síðustu sex stig leikhlutans og leiddu 21-10 að honum loknum.
Í öðrum leikhluta jafnaðist leikurinn aðeins og Haukar komast betur inn í leikinn en Ísfirðingar voru ávallt skrefinu framar en gestirnir úr Hafnarfirði. Staðan í hálfleik var 40-29 og heimamenn sterkari aðilinn.
Haukar voru frábærir í þriðja leikhluta og söxuðu jafnt og þétt niður muninn en Emil Barja skoraði síðustu stig leikhlutans og minnkaði muninn í aðeins tvö stig 55-53 þegar lokaleikhlutinn var aðeins eftir.
Ísfirðingar voru sterkari á öllum vígstöðvum í fjórða leikkhluta og var sigur þeirra sanngjarn en þeir léku afar vel í kvöld. Varnarleikur þeirra var til fyrirmyndar og þurftu Haukarnir að hafa mikið fyrir hlutunum. En Haukarnir geta nagað sig í handarbökin að vera með afleita vítanýtingu en þeir klúðruðu 12 af 27 vítaskotum sínum.
Craig Schoen var stigahæstur á vellinum með 31 stig en Helgi Björn Einarsson skoraði 23 stig fyrir gestina.