spot_img
HomeFréttirKFÍ sterkari á lokakaflanum

KFÍ sterkari á lokakaflanum

Í kvöld unnu KFÍ sex stiga sigur á Þórsurum, 68-74 í spennandi leik í Síðuskóla. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en gestirnir voru sterkari á lokakaflanum og sigldu sex stiga sigri í höfn, 68-74.
Þórsarar byrjuðu þó leikinn vel og Björgvin Jóhannesson setti strax niður þrist. Smá saman náðu KFÍ yfirhöndinni en Þórsarar voru þó aldrei langt á eftir. Graig Schoen var allt í öllu í leik gestanna. Hann var bæði duglegur að setja niður skotin sem og spila upp á félaga sína. Bjarki Oddsson kom sterkur af bekknum og náði að hægja á Graig Schoen þegar á leið fjórðungin. Þórsarar nýttu sér það og jöfnuðu leikinn á síðustu sekúndu fjórðungsins þegar Elvar Sigurjónsson setti niður tvö stig, 20-20. Þórsarar byrjuðu annan leikhluta betur en gestirnir og náðu fljótt fjögurra stiga forystu, 29-25. Þórsarar náðu þó ekki að fylgja eftir góðri byrjun. Misstu knöttinn of oft og hleyptu gestunum strax inn í leikinn. Gestirnir náðu góðum leikkafla undir lok fjórðungsins og náðu 6 stiga forskoti og héldu því þegar liðin gengu til búningsklefa.
 
Óðinn Ágeirsson byrjaði síðari hálfleikinn með að setja niður þriggja stiga körfu. Með stigum frá Sigurði Sigurðssyni og Wesley Hsu, náðu Þórsarar að vinna upp sex stiga forskot gestanna. Þórsarar virtust vera að ná upp góðri stemmningu í fjórðungnum, en gestirnir komu þó alltaf til baka. Það var góð hittni Denis Hvalec fyrir utan þriggja stiga línuna sem gerði það að verkum að gestirnir náðu sjö stiga forskoti í lok fjórðungsins. Gestirnir virtust ætla að gera út um leikinn í upphafi fjórða leikhluta. Með ágætri spilamennsku náðu gestirnir að byggja upp 13 stiga forskot. Heimamenn héldu þó ró sinni. Með 10 stigum frá Bjarna K. Árnasyni og Óðni Ásgeirssyni náðu heimamenn að minnka muninn niður í þrjú stig. Þórsarar fengu nokkur góð tækifæri til að minnka muninn niður í eitt stig eða jafnvel að jafna metin. Því miður fyrir heimamenn, náðu Þórsarar ekki að nýta sér þessi tækifæri. Gestirnir héldu haus og náðu með mikilli seiglu að innsigla sex stiga sigur, 68-74.
 
Myndasafn úr leiknum hér. – Hægt er að sjá fleiri myndir úr leiknum á www.runing.com/karfan
 
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson
Fréttir
- Auglýsing -