spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKemur í ljós í kvöld hvort leika þurfi fyrir luktum dyrum

Kemur í ljós í kvöld hvort leika þurfi fyrir luktum dyrum

Fátt er meira í umræðunni þessa dagana en Covid-19 vírusinn og útbreiðsla hans. Nú þegar hefur hún haft mikil áhrif á samfélagið og viðbúið að meira sé framundan.

Margir eru að velta fyrir sér hvað gerist almennt hjá okkur í körfuboltanum sem og íþróttunum á næstu dögum vegna Kórónaveirunnar. Sérsamböndin funda síðdegis í dag með ÍSÍ þar sem farið verður yfir næstu skref.

Karfan heyrði því stuttlega í Hannesi S.Jónssyni formanni KKÍ vegna málsins fyrr í dag.

„Það má segja að við séum búin að vera í viðbragðsstöðu síðustu daga og að sjálfsögðu i sambandi við yfirvöld og almannavarnir því það skiptir miklu máli að við förum eftir fyrirmælum yfirvalda og höldum þannig ró okkar einnig. Eðlilega eru fulltrúar félaganna í miklum samskiptum við okkur og þá má segja að nýliðin helgi hafi verið mikið í símanum vegna þessa og það er skiljanlegt. Einnig skiptir töluverðu máli að við öll sem íþróttahreyfing séum að grípa til svipaðra ráðstafanna. Seinnipartinn í dag verður fundur með almannavörnum og sóttvarnarlækni þar sem farið verður vel yfir stöðuna og þá getum við vonandi séð betri mynd af stöðunnni og hvað skal gera.” Sagði Hannes um viðbrögð sambandana.

Er raunverlegur möguleiki á því að spila fyrir luktum dyrum eða þá kannski bara stoppa alveg leiki í einhvern tíma ?

„Þetta er auðvitað þannig að allir möguleikar hafa verið ræddir , það er samt ekkert mjög spennandi að spila leiki fyrir luktum dyrum. Svo ekki sé nú talað um tekjutap félaganna við það núna þegar stærstu leikirnir er framundan. Einnig er ekkert sérlega spennandi að stoppa allt í einhvern tíma og þá hugsanlega vikur. Munum við þá yfirhöfið klára tímabilið ?” sagði Hannes og ljóst er að að mörgu er að huga.

„Eins og ég held að allir sjá þá eru ýmsir vinklar á þessu og því verður erfitt að taka ákvörðun hvað verður á en fundurinn í kvöld mun vonandi skýra stöðuna fyrir okkur og við munum vera í samband við félögin okkar í kvöld eða á morgun þriðjudag. Aftur ítreka ég að þetta er ekki auðvelt mál en á sama tíma er einnig gott að finna að mikill almennur skilingur er á því að um sérstakt ástand er að ræða og sama hvaða ákvörðun er tekin þá er hún ekki auðveld.”

Fréttir
- Auglýsing -