spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar tala yfir hausamótum Þórs

Keflvíkingar tala yfir hausamótum Þórs

Keflavík sigraði Þór í 14. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í Sláturhúsinu, með 114 stigum gegn 97. Keflavík sitja því í 3. til 6. sæti ásamt Njarðvík, Stjörnunni og Snæfell á meðan að Þór eru í 7. til 9. sæti ásamt Grindavík og Haukum.
 

 

Fyrir leikinn höfðu Þór nælt sér í nýjan erlendan leikmann, Darren Govens, en hann hafði áður spilað með þeim tímabilið 2011-2012 þegar að þeir höfðu komist alla leið í lokaúrslitin. Keflavík aftur á móti hafa verið í óðaönn að endurheimta sinn mannskap, þá kannski helstan Damon Johnson, úr meiðslum, en hann fór í hnéaðgerð í síðastliðnum nóvember, gagngert til þess að geta verið kominn á ról fyrir úrslitakeppni þessa tímabils.

 

Fyrri hálfleikurinn var ekki beint mikið fyrir augað, þar sem að bæði lið virtust vera að tapa óþarfa boltum og fleygja upp óþörfum loftsteinum. Almennt voru leikmenn beggja liða ekki í takt við hvorn annan og það sást langar leiðir. Það sem var þó ofaná var hversu vel vörn Keflavíkur virtist vera að ná saman. Þrátt fyrir að tapa frákastabaráttu fyrri hálfleiks, fór Keflavík með 11 stiga forskot til búningsherbergja. Sóknarlega munaði mestu um þá Damon Johnson (14 stig / 80% 2p fg) og Val Orra Valsson (12 stig) hjá Keflavík, en Darrin Govens (13 stig / 6 fráköst) hjá Þór.

 

Í þriðja leikhlutanum fóru Keflavík hinsvegar algjörlega á eld og eftir aðeins um 6 mínútur af seinni hálfleiknum, voru þeir búnir að gera 11 stiga forskot sitt (í hálfleik) að virðulegri 35 stiga forystu. Að miklu leyti má þakka, áfram sterkri vörn þeirra, en hinumegin á vellinum virtust þeir sömuleiðis hreinlega ekki geta klikkað. Eftir leikhlé um miðbygg leikhlutans komu menn Þórs þór dýrvitlausir til baka og náðu að enda þriðja í ekki meira en 17 stiga mínus, sem var, miðað við gang mála, allsvakalegur árangur fyrir þá.

 

Þrátt fyrir þennan mikla mun fyrir fjórða, máttu þeir sem vissu sínu, alveg vera viðbúnir því að synir Benedikts úr Þorlákshöfn héldu áfram sínu striki til þess að gera þetta að leik aftur (náðu mest að skera niður í 12 stiga -). Allt kom þó fyrir ekkert, Keflavík, með alla sína reynslu tókst að spila mjög agað það sem eftir lifði leiks og lönduðu með því 17 stiga sigri með 114 stigum gegn 97.

 

Maður leiksins var hinn aldraði Damon Johnson, sem skilaði 24 framlagsstigum, en hann skoraði 24 stig (9/14 af vellinum) og tók 8 fráköst á þeim 27 mínútum sem hann spilaði í leiknum.

 

Punktar:

  • 30 ára + leikmenn Keflavíkur skoruðu 60 stig í kvöld á móti 28 hjá Þór.
  • Keflavík tapaði 15 boltum á móti 23 hjá Þór.
  • Keflavík var með umtalsvert betri nýtingu en Þór í tveggja stiga skotum (63%/57%), þriggja stiga skotum (37%/31%) sem og af gjafalínunni (81%/74%).
  • Keflavík stal 14 boltum á móti 9 hjá Þór.
  • Leikmaður Keflavíkur, Þröstur Leó Jóhannesson, fór, eftir flotta frammistöðu, meiddur af velli laust eftir hálfleik.
  • Mesta forysta Keflavíkur var 35 stig (3.l.) á móti mestri 4 stiga(1.l.) forystu Þórs.
  • “Nýr” leikmaður Þórs, Darrin Govens, skoraði 27 stig og tók 12 fráköst í þessari endurkomu sinni fyrir Þór.
  • Keflavík notaði alla nema einn (Jens Valgeir Óskarsson) á móti öllum nema þremur (Sveinn Hafsteinn Gunnarsson, Davíð Arnar Ágústsson, Jón Jökull Þráinsson) hjá Þór til leiks.
  • Þó lið Keflavíkur hafi unnið leik kvöldsins gegn Þór, verður að segjast að áhangendur Þórs, sem voru nokkrir, hafi unnið stúkuna í kvöld. Því það heyrðist nákvæmlega ekkert í þeim fjölmörgu aðdáendum heimamanna í kvöld, ekki bofs, á meðan að ferðalangarnir frá Þorlákshöfn náðu upp stemmingu sín á milli í fjölmörg skipti. 

 

Myndasafn 

Tölfræði 

 

Keflavík-Þór Þ. 114-97 (23-18, 25-19, 35-24, 31-36)
 
Keflavík: Damon Johnson 24/8 fráköst, Davon Usher 21/12 fráköst, Valur Orri Valsson 19/5 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 16/4 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 11/5 stolnir, Gunnar Einarsson 9, Þröstur Leó Jóhannsson 9, Reggie Dupree 3, Davíð Páll Hermannsson 2, Jens Valgeir Óskarsson 0, Eysteinn Bjarni Ævarsson 0, Andrés Kristleifsson 0. 
 
Þór Þ.: Darrin Govens 27/12 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Grétar Ingi Erlendsson 22/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 12, Þorsteinn Már Ragnarsson 11/5 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 10, Halldór Garðar Hermannsson 6, Nemanja Sovic 6, Oddur Ólafsson 3/5 fráköst, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Davíð Arnar Ágústsson 0, Baldur Þór Ragnarsson 0/5 fráköst. 
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jón Bender, Björgvin Rúnarsson 
 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

 

 

Emil Karel – Þór:

 

Damon Johnson – Keflavík:

 
Fréttir
- Auglýsing -