Eftir flotta frammistöðu í fyrri hálfleik sáu Valsmenn undir hælana á Keflvíkingum í síðari hálfleik þegar liðin mættust í Lengjubikarkeppninni í kvöld. Lokatölur í Vodafonehöllinni 77-97 Keflavík í vil sem þó verður að teljast nokkur framför hjá Valsmönnum sem lágu 101-55 gegn Keflavík í fyrri leik liðanna í keppninni.
Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik, Keflvíkingar leiddu þó með fimm stigum í leikhléi eftir góða rispu undir lok annars leikhluta. Í þriðja leikhluta fór Guðmundur Jónsson á kostum og leiddi Keflvíkinga áfram, var heitur fyrir utan og lét Odd Ólafsson hafa vel fyrir hlutunum í vörninni.
Chris Woods var atkvæðamestur í liði Vals í kvöld með 28 stig og 12 fráköst en nýliðarnir í Domino´s deildinni voru mistækir gegn grimmri Keflavíkurvörn svo munurinn jókst jafnt og þétt. Andy Johnston rúllaði vel á sínum leikmannahóp en 10 af 11 leikmönnum á skýrslu skoruðu. Arnar Freyr Jónsson var ekki með í kvöld sökum flensu og þá eru Michael Craion og Magnús Þór Gunnarsson báðir smá laskaðir eftir Svíþjóðarævintýrið en það aftraði þeim ekki í því að setja saman alls 29 stig.
Benedikt Blöndal og Oddur Birnir Pétursson áttu fína spretti í Valsliðinu en Ragnar Gylfason gerði aðeins fjögur stig og öll af vítalínunni og virtist ekki alveg heill. Bæði lið því eitthvað að glíma við smávægileg meiðsli en Keflvíkingar eru með afar þéttan hóp og til alls líklegir í vetur. Valsmenn eiga nokkuð í land og ljóst að róðurinn verður þungur í vetur en stigin verða ekki gefin að Hlíðarenda.