spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar réttu úr kútnum með sigri á KR (Umfjöllun)

Keflvíkingar réttu úr kútnum með sigri á KR (Umfjöllun)

 
Keflavík landaði sínum fyrsta sigri í fjórum leikjum þegar þeir lögðu KR að velli í Iceland Express-deild karla í kvöld, 95-91. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur, en spennandi og skemmtilegur áhorfs þar sem Lazar Trifunovic fór á kostum í sínum fyrsta leik fyrir Keflavík. Hann skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og fór illa með KR-inga lengst af.
Keflvíkingar byrjuðu annars mun betur og áttu völlin framan af fyrsta leikhluta þar sem þeir náðu mest 15 stiga forskoti, 27-12. Það var ekki fyrr en rétt undri lok leikhlutans sem gestirnir sýndu af sér nokkuð lífsmark. Lazar lét strax finna fyrir sér og gerði 10 stig í fjórðunnum og lék á als oddi ásamt Herði Axel Vilhjálmssyni.
 
Sóknarleikur KR var í molum og Pavel Ermolinskíj var ekki nokkurn vegin að ná sér á strik, og munar sannarlega um minna.
 
Keflvíkingar bættu svo í í upphafi annars leikhluta og náðu 18 stiga forskoti, 38-20, áður en KR-ingar mættu loks til leiks. Þar fór Fannar Ólafsson að finna sig betur undir körfunni og smátt og smátt náðu þeir upp dampi. Forskot Keflavíkur minnkaði smátt og smátt og þegar hálfleiksflautan gall var staðan 53-45.
 
KR-ingar áttu gólfið í upphafi seinni hálfleiks og fóru langleiðina með að klifra uppúr holunni sem þeir grófu sér í upphafi leiks. Marcus Walker tók við stjórninni af Pavel sem fór á bekkinn í villuvandræðum og leiddi Vesturbæinga inn í leikinn og minnkuðu þeir muninn allt niður í 2 stig, 62-60 áður en Keflvíkingar tóku við sér á ný.
 
Lokaleikhlutinn var æsispennandi þar sem KR-ingar gengu á lagið eftir að Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherji Keflavíkur, fékk sína fimmtu villu. Þeir nýttu sér slakan sóknarleik heimamanna til að skora mikið af auðveldum körfum, en Keflvíkingar misstu leikinn samt aldrei úr höndum sér. Brynjar Þór Björnsson jafnaði leikinn, 86-86, þegar 2 og hálf mínúta voru til leiksloka, en nær komusr þeir ekki. Keflvíkingar héldu haus það sem eftir lifði leiks og fögnuðu innilega í leikslok.
 
Valentino Maxwell var einnig að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir Keflavík og stóð sig vel. Hann skoraði 21 stig, Hörður Axel var með 18 og Sigurður Gunnar með 10.
 
Hjá KR var Walker sá eini sem skarað framúr, með 28 stig, en Brynjar, Fannar og Hreggviður Magnússon voru allir með 13 stig.
 
Keflvíkingurinn Gunnar Einarsson var að vonum kátur í leikslok. „Við byrjuðum af miklum krafti en misstum svo dampinn. Þeir komu svo aftur inn í leikinn, en við náðum að halda þessu til streitu. Þetta var algjör baráttusigur.“ Gunnar sagðist ánægður með nýju leikmennina og þeir væru kærkomin viðbót við liðið.
 
Hrafn Kristjánsson , þjálfari KR var að vonum ósáttur við tapið, en slæm byrjun gerði þeim erfitt fyrir. „Keflvíkingarnir komu bara rétt stemmdir inn í leikinn á meðan við komum of stemmdir mætti segja. Við vorum ekki í jafnvægi og grófum okkur djúpa holu. Þegar þetta er tæpt undir lokin má lítið út af bera.“
 
Stigaskor:
 
Keflavík: Lazar Trifunovic 26/10 fráköst/5 stoðsendingar, Valention Maxwell 21/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 18/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/6 fráköst, Gunnar Einarsson 8, Þröstur Leó Jóhannsson 6/4 fráköst, Jón Nordal Hafsteinsson 6, Gunnar H. Stefánsson 0, Elentínus Margeirsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Sigmar Logi Björnsson 0, Andri Þór Skúlason 0.
 
KR: Marcus Walker 28/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 13/9 fráköst, Fannar Ólafsson 13/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 13/5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 10/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 9/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 3, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Matthías Orri Sigurðarson 0, Martin Hermannsson 0, Ágúst Angantýsson 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Davíð Kr. Hreiðarsson
 
Umfjöllun: ÞJ
 
Ljósmynd/ www.vf.isGunnar Einarsson sækir að körfu KR í Toyota-Höllinni í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -