Gunnar Einarsson með 31 stig í kvöld
Það var leikur kattarins að músinni þegar að Keflavík fékk Skallagrím í heímsókn í kvöld. Keflvíkingar áttu þó í smá basli gesti sína í fyrsta fjórðung. En í þeim öðrum var gefið í og ekki aftur snúið. Þennan mun náðu gestirnir aldrei að ógna og var síðasti fjórðungur leiksins aðeins formsatriði.
Sem fyrr segir voru gestirnir nokkuð öflugir í fyrsta fjórðung og héldu í við heimamenn. Aðeins 4 stig skildu liðin eftir þann fjórðung. En um miðbik þess annars settu heimamenn í fluggír og tóku öll völd á vellinum. 62-38 var staðan í hálfleik og voru heimamenn alls ekki hættir. Þeir bættu í sinn leik í seinni hálfleik og voru á tíma komnir með 46 stiga forskot.
Skemmst frá því að segja áttu Skallagrímsmenn aldrei nokkurn möguleika á að sigra í Keflavík í kvöld. 123-77 var lokastaða leiksins. Hjá Keflavík var Gunnar Einarsson með 31 stig og fast á hæla hans var það Hörður Axel með 28 stig. 11 leikmenn liðs Keflvíkinga komust á blaði í kvöld en Gunnari Stefánssyni var fyrirmunað að setja niður körfu þrátt fyrir ágætis tilraunir. Hjá gestunum var það Igor Beljanski sem var þeirra stigahæstur með 24 stig. Það það var Björgvin Hafþór Ríkharðsson sem stal senuni í kvöld í Toyota Höllinni. Þessi 15 ára gutti sýndi oft á tíðum fína takta og setti niður 7 stig í kvöld.
Einhverjum áhorfanda varð að orði að þessi leikur væri að breytast í fermingarveislu þegar þeir félagar Björgvins, Birgir Sverrirsson og Daníel Andri Jónsson voru komnir inná, en í kjölfarið lækkaði meðalhæð liðsins . Þarna eru á ferðinni greinilega efnilegir peyjar sem eiga eftir að láta af sér kveða í fyrstu deildinni að ári með Skallagrímsliðinu.