spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar með yfirhöndina eftir sigur á Sunnubrautinni

Keflvíkingar með yfirhöndina eftir sigur á Sunnubrautinni

Keflavík lagði Álftanes í Blue höllinni í kvöld í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla. Með sigrinum nær Keflavík yfirhöndinni í einvíginu 2-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í undanúrslitin.

Fyrir leik

Þrátt fyrir að einvígið hafi verið jafnt fyrir leik kvöldsins, þá höfðu fyrstu tveir leikirnir ekkert verið neitt sérstaklega spennandi. Keflavík vann gífurlega örugglega í fyrsta leiknum á Sunnubrautinni. Í Forsetahöllinni héldu Álftanes liði Keflavíkur í 56 stigum í leik tvö og unnu jafnvel enn meira sannfærandi sigur.

Gangur leiks

Eftir fjörugar upphafsmínútur eru það gestirnir af Álftanesi sem ná góðum tökum á leiknum. Í seinni hluta fyrsta fjórðungs heldur vörn þeirra vel og ná þeir að byggja upp ágætis forskot á hinum enda vallarins. Munurinn 9 stig fyrir annan leikhlutann, 19-28. Heimamenn eru snöggir að vinna niður forskotið í upphafi annars leikhluta og eru leikar nánast jafnir þegar 5 mínútur eru eftir af fyrri hálfleiknum, 33-34. Leikurinn helst svo nokkuð jafn út hálfleikinn, en þegar liðin halda til búningsherbergja er jafnt 44-44.

Stigahæstur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Remy Martin með 12 stig á meðan að Douglas Wilson var kominn með 8 stig fyrir Álftanes.

Keflvíkingar hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og ná sinni mestu forystu til þessa í leiknum, 6 stigum, í upphafi þriðja leikhlutans, 57-51. Álftnesingar gera þó vel að missa þá ekki lengra frá sér. Ná hvað eftir annað að stoppa varnarlega og þá setja Dúi Þór Jónson og Dino Stipcic stóra þrista fyrir þá á hinum enda vallarins til þess að halda leiknum jöfnum inn í lokaleikhlutann, 69-69. Álftnesingar virðast ná aftur tökum á leiknum í fjórða leikhlutanum. Ná að halda hraða leiksins nær því sem hentar þeim og halda áfram að setja þristana sína. Heimamenn láta þó ekki deigan síga og munar aðeins 2 stigum þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 74-76.

Lokamínúturnar voru nokkuð spennandi. Með tveimur þristum í jafn mörgum sóknum frá Remy Martin kemst Keflavík 6 stigum á undan þegar 1:30 er á klukkunni, 85-79. Ásamt fínni vörn heimamanna var það það sem skildi liðin að að lokum. Niðurstaðan 88-84 sigur Keflavíkur.

Kjarninn

Ef fyrsti leikurinn var algjörlega á hröðum hraða Keflavíkur, þar sem þeir vinna örugglega og annar leikurinn á hægum hraða Álftnesinga, þar sem þeir vinna örugglega, þá var þessi einhverstaðar á milli og úr varð hin besta skemmtun. Ekkert rosalega mikið sem skildi liðin að í kvöld. Helst til voru það kannski sóknargæði Remy Martin sem voru munurinn, herra fjórði leikhluti, en það er erfitt að sjá hvernig lið hans á að geta tapað leikjum sem eru jafnir í lokin.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Keflavíkur í kvöld var Remy Martin með 29 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Honum næstur var Sigurður Pétursson með 17 stig og 8 fráköst.

Fyrir Álftnesinga voru atkvæðamestir Dino Stipcic með 18 stig, 5 fráköst og Dúi Þór Jónsson með 17 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.

Næsti leikur

Fjórði leikur Keflavíkur og Álftaness fer fram kl. 19:00 komandi þriðjudag 23. apríl í Forsetahöllinni.

Tölfræði leiks

Mynd / Márus Björgvin

Fréttir
- Auglýsing -