spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar í 16 liða úrslit: Eitt lið á vellinum í fjórða leikhluta

Keflvíkingar í 16 liða úrslit: Eitt lið á vellinum í fjórða leikhluta

Keflavík er komið í 16 liða úrslit Poweradebikarkeppninnar eftir öruggan 85-102 sigur á ÍR í Hellinum í Breiðholti. Fyrstu þrír leikhlutarnir voru hnífjafnir og spennandi en ÍR-ingar voru allt of ragir við að ráðast í teiginn gegn svæðisvörn Keflavíkur og tóku 31 þriggja stiga skot í leiknum þar sem 8 rötuðu rétta leið. Keflvíkingar voru því einráðir á lokasprettinum þar sem Charles Parker gerði 27 stig hjá Keflavík en Robert Jarvis gerði 20 hjá ÍR.
Fyrsti leikhluti var jafn og gaf góð fyrirheit um bikarslag. ÍR leiddi 23-20 að loknum fyrsta leikhluta og voru ívið sprækari og komu fleirum í gang en Keflavík snemma leiks.
 
ÍR opnaði annan leikhluta með fínu áhlaupi og leiddu 31-22 þegar Keflvíkingar fóru að taka við sér. Gestirnir héldu sig við sitt leikplan, brugðu til bæði svæðis- og maður á mann varnar. Á meðan ÍR-ingar voru að hitta fyrir utan höfðu þeir undirtökin, Robert Jarvis átti spretti og með tveimur þristum í röð sleit hann ÍR frá að nýju, 42-32.
 
Keflvíkingar klóruðu í bakkann fyrir hálfleik þar sem Steven Gerard skellti niður þrist með tæpar fjórar sekúndur eftir af hálfleiknum og heimamenn í ÍR leiddu 46-41 í leikhléi.
 
Hægt og bítandi fóru Keflvíkingar að læðast í stjórnartaumana, Halldór Örn Halldórsson
og Almar Guðbrandsson tóku saman litla rispu og aðrir leikmenn Keflavíkur fylgdu þeirra fordæmi. Charles Parker reyndist ÍR sérstaklega erfiður og að hans tilstuðlan leiddu Keflvíkingar 69-71 eftir gegnumbrot frá Parker og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leiklhuta.
 
Hæfileikana vantar ekki í lið ÍR og það þykir ekki góð venja að ráðast aftan að mönnum en hér er þó bent tilfinnanlega á að ÍR-ingum sárvantar leiðtoga. Kraftmiklir bakverðir eins og Robert Jarvis, James Bartolotta, Eiríkur Önundarson og Ellert Arnarson koðnuðu niður á lokasprettinum en það var þó helst Ellert sem var með lífsmarki.
 
Keflvíkingar voru allsráðandi á loksaprettinum og þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka leiddu gestirnir 78-94 og kláruðu svo dæmið 85-102. Keflvíkingar eru því komnir í 16 liða úrslit en ÍR-ingar hafa lokið þátttöku sinni í Poweradebikarkeppninni.
 
Magnús Þór Gunnarsson var enn fjarri góðu gamni í gærkvöld en hann er puttabrotinn en Keflvíkingar nutu krafta hans á bekknum. Eins og fyrr segir var Charles Parker með 27 stig hjá Keflavík og Jarryd Cole bætti við 23. Valur Orri Valsson átti einnig fínan dag með Keflavík og setti 15 stig. Robert Jarvis var með 20 stig í liði ÍR og James Bartolotta gerði 19 stig.
 
 
Umfjöllun/ [email protected]
 
  
Fréttir
- Auglýsing -