spot_img
HomeFréttirKeflavíkursigur í Toyotahöllinni

Keflavíkursigur í Toyotahöllinni

 Keflvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með að leggja gesti sína úr Breiðablik í kvöld að undanskildum fyrstu mínútum leiksins. Blikar sýndu á fyrstu mínútum leiksins vígtennurnar og gáfu heimamönnum ekkert eftir. En þegar líða tók á leikinn þá voru heimamenn sterkari og sigruðu að lokum 96-74
 Sem fyrr segir voru Blikar grimmir á fyrstu mínútum leiksins og voru vel inní leiknum. Þrátt fyrir lítið skor í fyrsta fjórðung þó voru það heimamenn sem leiddu með 8 stigum þegar honum lauk. Gestirnir áttu svo í fullu tré við heimamenn í öðrum fjórðung og þá fóru hlutirnir að gerast hraðar í leiknum og körfurnar komu á færibandi. 
 
Á þessum tíma fór Rashon Clark fyrir heimamönnum og hafði þegar í fyrri hálfleik sett niður 15 stig.  Stigaskorið var örlítið dreyfðara hjá gestunum þó svo að John Davis hafi verið þeirra stigahæstur fram að þessu.  Í seinni hálfleik hófu heimamenn að pressa gestina framarlega og uppskáru fljótlega 15 stiga forskot. Keflvíkingar leiddu með 19 stigum fyrir síðasta fjórðunginn og lítið sem benti til þess að gestirnir ættu nokkra möguleika á sigri. 
 
Heimamenn slökuðu hinsvegar á taumnum og gáfu gestunum færi á að komast aftur í leikinn. Þetta nýttu Blikar sér til fulls og náðu að minnka muninn niður í 9 stig. En mikil orka fór í að ná niður þessum mun á meðan heimamenn náðu að hvíla byrjunarlið sitt. Vel hvíldir komu byrjunarliðsmenn Keflvíkinga inná og kláruðu dæmið nokkuð auðveldlega sem fyrr segir. 
 
Rashon Clark var maður leiksins að þessu sinni þar sem hann skilaði 28 stigum og hrifsaði til sín 10 fráköst. Þar er á ferðinni gríðarlega duglegur strákur sem á eftir að reynast Keflvíkingum vel í vetur. John Davis sá um stigaskorun gestanna og setti niður 23 stig og tvö þeirra stiga komu úr svakalegri viðstöðulausri troðslu frá þriðju hæð.  Hörður Axel var næstur í stigaskorun hjá Keflvíkingum með 17 stig en hjá gestunum var það Daníel Guðni sem setti niður 14 stig. 
 
Viðtöl eftir leik má skoða á Karfan TV
Fréttir
- Auglýsing -