spot_img
HomeFréttirKeflavík vann sinn áttunda í röð í Ljónagryfjunni - Vinna leiki sína...

Keflavík vann sinn áttunda í röð í Ljónagryfjunni – Vinna leiki sína að jafnaði með 16 stiga mun

Keflavík hóf aðra umferðina í Subwaydeild kvenna rétt eins og þá fyrstu, með sigri á Íslandsmeisturum frá Njarðvík. Spennuslagur liðanna sem fram fór í Ljónagryfjunni í kvöld var lokaleikurinn í 8. umferð deildarinnar. Lokatölur reyndust 73-80.

Eftir kvöldið er Keflavík á toppnum með 16 stig en Njarðvík í 4. sæti með 8 stig og til þessa hafa meistararnir fallið á öllum toppleikja-prófunum með tapi gegn Keflavík í tvígang, Haukum og Val.

Í kvöld frumsýndu Njarðvíkingar Isabellu Ósk Sigurðardóttur og ljóst að hún mun styrkja Ljónynjur mikið þó sjálf hafi hún haft fremur hægt um sig í stigaskorinu í kvöld með 2 stig en reif þó niður 10 fráköst.

Fyrstu 8 umferðirnar hafa Keflvíkingar að jafnaði unnið leiki sína með 16 stiga mun, það er marsmánuður í Keflavík miðað við holningu þeirra samanborið við önnur lið. Ef áfram heldur sem horfir er ekki nokkurt lið líklegt til þess að veita þeim keppni um deildarmeistaratitilinn.

Að leiknum…

Grænar byrjuðu betur og komust í 5-0 en Keflvíkingar hrukku þá myndarlega í gang og skoruðu 15 stig í röð. Keflavík var 5-8 í þristum eftir fyrsta leikhluta og leiddu 15-21. Fyrsti leikhluti var gestunum samt ekki að kostnaðarlausu þar sem Birna Valgerður var studd af velli eftir að hafa lent illa á öðrum ökklanum. Eygló Óskarsdóttir kom inn af bekknum fyrir Birnu og var virkilega traust í teignum fyrir Keflavík. Mikil ógn og breytir skotum andstæðinga og því vinnusöm í hluta leiksins sem límist ekki við nein tölfræðiblöð en þó veigamikill.

Collier var vart skugginn af sjálfri sér í fyrri hálfleik með 4 stig og munaði um minna. Keflavíkurvörnin var þétt og ekki svo mikið flautað á bæði lið sem voru aðeins með sex villur hvort í fyrri hálfleik.

Anna Ingunn var 3-5 í þristum í fyrri og þeir voru allir stemmningsþristar fyrir Keflavík sem leiddu verðskuldað 32-44 í hálfleik. Laneiro var með 12 hjá Njarðvík í leikhléi og sömuleiðis Daniela fyrir Keflavík. Gestirnir með 10 þrista í fyrri hálfleik og margir þeirra nokkuð opnir gegn slöppum varnarleik meistaranna.

Bæði lið lentu með leikmenn í villuvandræðum í síðari hálfleik en það voru Njarðvíkingar sem áttu þriðja leikhluta, unnu hann 25-15 þar sem Collier var mætt til leiks. Staðan 56-59 fyrir Keflavík og lokaleikhlutinn framundan. Mestu munaði að Njarðvíkingar náðu að herða tökin í vörninni og Keflvíkingar tóku þessar tíu mínútur án þess að skora þrist.

Collier virtist ætla að taka leikinn alfarið í sínar hendur og sigla Njarðvíkingum í átt að sigri þegar hún kom þeim í 66-64. Næst á boðstólunum voru tvær villur með stuttu millibili og Collier komin með fimm villur. Óhætt er að segja að þetta hafi verið högg í síðuna fyrir Njarðvík því Keflavík kláraði leikinn 7-16 með Collier utan vallar síðustu fimm mínútur leiksins. Lokatölur 73-80 þar sem Anna Ingunn Svansdóttir nuddaði síldartunnu af salti í sárin með flautuþrist fyrir Keflavík.

Skin og skúrir:

Eygló Kristín Óskarsdóttir fær klapp á bakið fyrir frammistöðu sína í kvöld, kom einbeitt inn fyrir Birnu Valgerði sem meiddist í fyrsta leikhluta og Eygló skilaði 5 stigum og 10 fráköstum og var Njarðvíkingum erfið varnarlega. Daniela Wallen var stigahæst með 23 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og Anna Ingunn 4-7 í þristum lauk leik með 18 stig.

Raquel Laneiro var stigahæst hjá Njarðvík í kvöld með 25 stig en Collier var alltof lengi fjarverandi í liði meistaranna og þá náði Lavinia Da Silva aldrei tengingu við leikinn. Bríet Sif Hinriksdóttir lét hinsvegar finna fyrir sér gegn uppeldisfélaginu Keflavík og skoraði 17 stig.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Gangur leiksins:

5-5, 10-15, 15-21

19-28,  21-32, 32-44

38-48, 49-54, 56-59

60-64, 66-68,

https://www.karfan.is/2022/11/daniela-eftir-attunda-sigur-keflavikur-i-rod-hugarfarid-er-annad/
https://www.karfan.is/2022/11/isabella-eftir-fyrsta-leikinn-med-njardvik-skemmtilegt-ad-koma-beint-i-alvoru-slag/
Fréttir
- Auglýsing -