spot_img
HomeFréttirKeflavík sterkari á endasprettinum

Keflavík sterkari á endasprettinum

Bryndís Guðmundsdóttir var drjúg er Keflvíkingar lönduðu sínum þriðja deildarsigri í röð með 67-68 sigri á Haukum að Ásvöllum en lokamínútur leiksins voru æsispennandi. Bryndís gerði 18 stig, tók 13 fráköst og gaf 7 stoðsendingar en með sigrinum tókst Keflavík að jafna Hauka í deildinni. Heather Ezell fékk tækifæri til þess að jafna leikinn fyrir Hauka af vítalínunni þegar 5,7 sekúndur voru til leiksloka en hún hitti aðeins úr öðru vítinu.
Á mánaðarafmæli dóttur sinnar mætti Pálína Gunnlaugsdóttir aftur til leiks í herbúðum Keflavíkur. Þetta var fyrsti leikur Pálínu síðan ljóst varð að hún var með barni. Fyrir mánuði síðan fæddist henni og Stjörnumanninum Kjartani Atla Kjartanssyni stúlkubarn. Pálína er hörkutól eins og flestir þekkja og aðeins mánuði eftir barnsburð er hún komin af stað. Pálína lék síðustu fimm mínútur leiksins og tók eitt frákast.
 
Ládeyða var að Ásvöllum í upphafi leiks og lítið skorað. Kristi Smith átti lokaorðið fyrir Keflavík með stökkskoti í teignum og leiddu gestirnir 14-18 að lokum fyrsta leikhluta.
 
Keflvíkingar voru sprækari í öðrum leikhluta og með þriggja stiga körfu kom Marín Rós Karlsdóttir Keflavík 10 stigum yfir 16-26. Telma Lind Ásgeirsdóttir kom sterk inn af bekknum hjá Keflavík í öðruml leikhluta og gerði fljótt fjögur stig.
 
Haukar reyndu að klóra í bakkann með prýðilegri svæðisvörn en Keflvíkingar voru skrefinu á undan og leiddu 29-43 í hálfleik.
 
Telma B. Fjalarsdóttir gerði fyrstu stig síðari hálfleiksins með körfu og fékk hún villu að auki og með vítinu minnkaði hún muninn í 32-43. Skömmu síðar kviknaði á Heather Ezell í Haukaliðinu sem var einungis með 6 stig í fyrri hálfleik sem er nokkuð dræmt hjá þessum mikla stigaskorara.
 
Ezell minnkaði muninn í 41-47 þar sem hún gerði 9 stig í röð fyrir Hauka. Bæði lið voru að leika nokkuð hratt í síðari hálfleik og virtust ráða illa við hraðann sé litið til þeirra bolta sem grýtt var útaf eða beint upp í hendur andstæðinga.
 
Ezell kom svo með enn einn þristinn og minnkaði muninn í 48-52 en hún gerði 14 stig í leikhlutanum. Leikar stóðu svo 50-55 Keflavík í vil fyrir fjórða og síðasta leikhluta sem átti eftir að verða hjartastyrkjandi.
 
Keflvíkingar létu forystuna ekki af hendi og leiddu áfram en um miðjan leikhlutann kom Pálína inn á í Keflavíkurliðinu og sást það fljótt á henni að hún var ekki í sínu besta formi en hafði engu gleymt í vörninni.
 
Þegar Haukar höfðu minnkað muninn í 64-66 kom Rannveig Kristín Randversdóttir með mikilvæga körfu fyrir gestina er hún setti niður stökkskot og breytti stöðunni í 64-68 þegar tæp ein og hálf mínúta var eftir.
 
Ezell minnkaði muninn í 66-68 af vítalínunni og 40 sekúndur til leiksloka. Keflvíkingar tóku innkast og grýttu boltanum útaf en annar tveggja dómara leiksins dæmdi boltann Keflavík í vil. Varnarmaðurinn, Guðrún Ámundadóttir, var alls ekki sátt við þennan dóm og lét vel í sér heyra en það þýðir lítið að þræta við dómarann.
 
Pálína Gunnlaugsdóttir fékk boltann í sókn Keflavíkur og tók erfitt skot í teignum þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Skotið geigaði og Haukar héldu í sókn þar sem brotið var á Ezell þegar 5,7 sekúndur voru til leiksloka.
 
Haukum til mikillar mæðu hitti Ezell aðeins úr öðru vítinu og Keflvíkingar létu það tæki færi ekki úr höndum sér ganga og náðu að loka leiknum 67-68 og þriðji deildarsigur þeirra í röð kominn í hús.
 
Heather Ezell var með 27 stig í liði Hauka en hún var einnig með 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Næst henni var Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 18 stig og 14 fráköst en Ragna var ógnandi í teignum og áttu Keflvíkingar oft í basli með hana.
 
Kristi Smith var stigahæst í liði Keflavíkur með 19 stig og 4 fráköst en besti maður vallarins í kvöld var Bryndís Guðmundsdóttir með 18 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -