Keflavíkurstúlkur hefja nýtt ár með sigri á grönnum sínum úr Njarðvík. Njarðvíkurstúlkur mættu sprækar til leiks og náðu góðu forskoti en þegar Keflavík vaknaði loksins til lífsins var ekki aftur snúið og 86-64 heimasigur leit dagsins ljós.
Sem fyrr segir voru það Keflavíkurstúlkur sem hófu leikinn töluvert betur og náðu 12 stiga forskoti í fyrsta fjórðung. Í stöðunni 4-16 hófu Keflavíkurstúlkur sig á loft og breyttu stöðunni snögglega í 26-18. Gestirnir úr Njarðvík héldu vel í við heimastúlkur en góðar lokamínútur fyrir hálfleik hjá Keflavík gerði það að verkum að þær leiddu með 16 stigum í hálfleik 48-32.
Njarðvíkurstúlkur reyndu hvað þær gátu í seinni hálfleik en allt kom fyrir ekki. Keflavík virtist einfaldlega vera of stór biti fyrir gesti sína í dag og fóru með nokkuð öruggan sigur af hólmi 86-64. Akkilesarhæll Njarðvíkurliðsins virðist vera óskipulagður sóknarleikur þeirra því vissulega er þarna mannskapur sem gæti hæglega gert betur. "Við komum vel undirbúin í þennan leik en á tveggja mínútna kafla þá virðumst við hætta að spila eins og lið. Við byrjum að henda boltanum frá okkur hreinlega og smá læti frá Keflvíkingum og þá virtumst við bara hökta. Þær skora þarna 16 stig í röð og eftir það erum við bara að elta. Þegar leikmenn fara að pæla í smáatriðum og væla í dómurum þá hætta skotin að detta og maður er alltaf að svekkja sig þá endar þetta svona eins og í kvöld." sagði Unndór Sigurðsson þjálfari Njarðvíkinga í lok leiks.
"Við fengum smá hjálp frá Unndór þjálfara UMFN fyrir þennan leik, en hann sagði eftir síðasta leik þessara liða að hann væri með betra lið en við. Ég nýtti það í að peppa stúlkurnar upp og þær ætluðu svo sannarlega að sýna honum að hann væri ekki með betra liðið sem þær og gerðu. Þetta var flottur sigur og gott upphaf á nýju ári" sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur.