spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík lagði Hauka í Ólafssal

Keflavík lagði Hauka í Ólafssal

Haukar og Keflavík mættust í kvöld í Ólafssal en fyrir leikinn sátu liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar með sex stig eins og Valur, Skallagrímur og Fjölnir.

Báðum liðum var spáð ofarlega í töflunni og fyrirfram klárt að hart yrði barist. Keflavík vann nokkuð þægilegan sigur á Fjölni í síðustu umferð á meðan Haukar börðust grimmilega gegn Valsstúlkum.

Byrjunarlið Hauka: Þóra Kristín, Bríet Sif, Alyesha, Eva Margrét og Lovísa Björt

Byrjunarlið Keflavíkur: Katla, Emelía, Daniela, Dalla og Anna.

Haukar byrjuðu af miklum krafti með þriggjastiga körfu, stolnum bolta í næstu vörn og körfu + víti að auki í næstu sókn. Flottur kraftur í Haukastúlkum í upphafi leiks en á sama tíma gekk lítið upp hjá Keflavík. Staðan um miðjan leikhlutann var 8-2 fyrir Hauka og klárt að Keflvíkingar þyrftu að byrja leikinn.


Daniela minnkaði muninn í þrjú stig 8-5 og í næstu sóknum á eftir skiptust liðin á körfum en Haukar þó alltaf í bílstjóra sætinu með Bríeti Sif í fararbroddi. Bríet smellti niður sjö stigum á stuttum kafla og  Haukar leiddu með þeim mun eftir leikhlutann, 22-15.

Haukar opnuðu annan leikhluta á þriggja stiga körfu og voru komnar 10 stigum yfir 25-15. Daniela Wallen lagaði aðeins stöðu Keflvíkinga þegar hún kom með góða rispu á stuttum tíma og minnkaði muninn niður í fimm stig 25-20.


Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, tók leikhlé í stöðunni 29-24 til að skerpa á leik sinna manna. Þetta leikhlé nýtti hins vegar Jón Halldór, þjálfari Keflavíkur, sér betur enda kom allt annað Keflavíkurlið inn úr leikhléinu. Á rétt rúmlega tveimur mínútum voru Keflvíkurstúlkur búnar að minnka muninn í eitt stig og Bjarni Magg sá sig knúinn til að taka annað leikhlé. Keflavík jafnaði leikinn í 33-33 þegar 1:29 voru eftir af leiknum og þannig stóð í hálfleik.

Fram að miðjum öðrum leikhluta voru leikmenn Keflavíkur að gera sig sekar um töluvert að töpuðum boltum og helling af þriggja stiga skotum. Þær hins vegar löguðu sinn leik til muna síðustu fimm mínútur leiksins og fyrir vikið náðu þær að jafna og gáfu góð fyrirheit fyrir seinni hálfleik.

Það var allt gjörsamlega stál í stál í þriðja leikhluta og klárt mál að hvorugt liðið ætlaði sér að hleypa hinu á eitthvað skrið. Keflavíkstúlkur voru þó grimmari og um miðjan leikhlutann komust þær yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 39-40, og í næstu sókn á eftir komst Daniela upp að körfu Hauka, skoraði og fékk víti að auki. Keflavík komið fjórum stigum yfir og ekkert gekk upp hjá Haukum á þessum kafla.


Keflavíkurstúlkum leiddist ekkert að vera yfir og gáfu ekkert eftir. Þær náðu að þvinga Haukastúlkur í erfið skot og tapaða bolta og kórónuðu flottan leikhluta með flautu þrist frá Ernu Hákonardóttur og leiddu 44-51 fyrir fjórða leikhluta.

Varnir beggja liða voru nokkuð góðar en þó var vörn Keflavíkur betri og áttu Haukastúlkur fá svör. Þriggja stiga tilraunir þeirra heppnuðust ekki, eins og gerði í upphafi leiks, en á sama tíma voru leikmenn Keflavíkur farnar að setja niður sínar tilraunir og þá helst Erna Hákonar. Á fjórðu mínútu leikhlutans bætti hún einum í sarpinn og kom Keflavík 10 stigum yfir, 46-56.


Keflavík hélt uppteknum hætti og náði 14 stiga forskoti þegar um tvær mínútur lifðu leiks, 51-65, og ekkert sem benti til þess að Haukar myndu ná að gera atlögu að sigri Keflavíkur. Keflavík átti í raun svör við öllum sóknaraðgerðum Hauka og unnu að endingu leikinn með 10 stigum, 57-67.

Það verður að segjast að þetta var ekki fallegasti körfubolti sem spilaður hefur verið en bæði lið sýndu fína takta og þá helst Keflavíkur stúlkur í seinni hálfleik. Varnir beggja liða voru þéttar en Keflavík vann þennan leik einfalldlega því þær voru grimmari varnarlega og Haukar gáfu eftir.

Daniela Wallen átti gólfið með 31 stig og 23 fráköst. Anna Ingunn var líka flott og setti 13 stig á töfluna.


Hjá Haukum leiddu Bríet Sif og Alyesha Lovett vagninn en Bríet Sif setti niður 17 stig og Alyesha var með 13 stig og 7 fráköst.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -