spot_img
HomeSubway deildinSubway deild kvennaKeflavík knúði fram oddaleik

Keflavík knúði fram oddaleik

Stjarnan tók í kvöld á móti Keflavík í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar kvenna. Fyrir leik hafði Stjarnan forystu í einvíginu, 2-1, og gátu Garðbæingar því með sigri tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu gegn Valskonum, sem unnu KR fyrr um kvöldið.

Heimakonur byrjuðu leikinn betur og höfðu 21-17 forskot að loknum fyrsta leikhluta. Þá bitu gestirnir heldur betur í skjaldarrendur og völtuðu yfir Stjörnuna í næstu tveimur leikhlutum. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 46-64, gestunum í vil og þrátt fyrir ágætis áhlaup heimakvenna varð lokaleikhlutinn aldrei spennandi. Lokatölur voru 73-83, og knýja Keflvíkingar því fram oddaleik eftir að hafa lent 2-0 undir í einvíginu.

Lykillinn

Keflavík náði að loka vörninni hjá sér virkilega vel í öðrum og þriðja leikhluta, og gerðu það að verkum að leikmenn Stjörnunnar, aðrir en Danielle Rodriguez, fengu vart að sjá boltann. Rodriguez var langatkvæðamest í liði Garðbæinga með 37 stig, en flest þeirra komu þó í lokafjórðungnum þegar gestirnir voru með unninn leik í höndum sér. Sóknarframlagið dreifðist kannski ekki mikið meira hjá Keflavík, þar sem Brittany Dinkins skoraði 39 stig, en vörn gestanna var frábær í öðrum og þriðja leikhluta, en í þeim tveimur leikhlutum skoraði Stjarnan ekki nema 25 stig. 

Hetjan

Brittany Dinkins var óstöðvandi í leik gestanna, en hún skoraði líkt og áður segir 39 stig og bætti þar að auki við 11 fráköstum og 6 stoðsendingum. Stjörnukonur höfðu góðar gætur á Dinkins fyrstu tvo leiki einvígisins, en þessi frábæri leikmaður fann heldur betur fjölina í kvöld.

Framhaldið

Sigur Keflavíkur þýðir það eitt að oddaleik þarf til að skera úr um sigurvegara einvígisins. Sá oddaleikur fer fram í Blue-höllinni í Reykjanesbæ, miðvikudaginn 17. apríl næstkomandi.

Fréttir
- Auglýsing -