Keflvíkingar gerðu góða ferð í Ljónagryfjuna í kvöld þegar þeir skelltu Njarðvíkingum 74-86 í lokaleik fimmtu umferðar Domino´s deildar karla. Á tíma var munurinn 30 stig Keflavík í vil en Njarðvíkingar björguðu andliti lítið eitt í fjórða leikhluta en sú rispa kom of seint, Keflvíkingar lokuðu á gestgjafa sína í öðrum og þriðja leikhluta og lögðu þar með grunninn að sigri kvöldsins.
Uppúrsuða og stimpingar gerðu vart við sig í fyrsta leikhluta sem lauk 21-21. Bæði lið að skjóta óhóflega af þristum en jafnt á öllum tölum og fyrirheit um spennuslag framundan.
Snemma í öðrum leikhluta hrökk William Thomas Graves í gírinn, skellti niður 8 stigum í röð og trekkti Keflvíkinga í gang. Varnarleikur Keflavíkur var þéttur og hann gekk alltaf betur og betur upp eftir því sem Njarðvíkingar sóttu minna og minna að körfunni. Þriggja stiga nýting heimamanna var afleit, luku leik í kvöld með 16% nýtingu og sama hvað þeir settu á loft það skilaði sér ekki niður. Staðan 27-45 fyrir Keflavík í hálfleik sem hélt Njarðvíkingum í aðeins sex stigum í öðrum leikhluta!
William Thomas Graves er stigahæstur í hálfleik hjá Keflavík með 12 stig og 3 fráköst og þeir Valur Orri og Damon Johnson voru báðir með 10 stig. Hjá Njarðvík var Dustin Salisbery með 11 stig og þeir Logi Gunnarsson og Hjörtur Hrafn Einarsson báðir með 6 stig.
Guðmundur Jónsson minnti á sig á gamla heimavellinum í þriðja hluta, tveir sterkir þristar og annar langdrægur með eindæmum voru bara vatn á myllu Keflavíkur sem hélt áfram að misþyrma heimamönnum. Damon Johnson gamli seigur splæsti í hraðaupphlaupstroðslu og var eini maður vallarins sem landaði tvennu, sjálfur aldursforsetinn! Staðan 36-66 eftir þrjá leikhluta og grænir í stúkunni farnir að hárreita sig, skiljanlega! Hér stefndi allt í versta ósigur Njarðvíkinga á heimavelli í deildinni gegn erkifjendunum úr Keflavík.
Ágúst Orrason kveikti líf hjá Njarðvík í fjórða leikhluta og það verður að segjast eins og er að besti kafli heimamanna í leiknum gekk í garð með Dustin Salisbery utanvallar. Þrátt fyrir 22 stig og 7 fráköst í kvöld þá var hann 0-6 í þristum og engan veginn nægilega ógnandi í námunda við körfuna.
Hægt og bítandi saxaði Njarðvík niður forskotið úr 30 stigum. Fyrst niður í 19 stig, 51-70 og svo 12 stig þegar Ágúst setur þrist og minnkar í 66-78. Holan var einfaldlega orðin of djúp og Keflvíkingar héldu fengnum hlut og kláruðu leikinn 74-86. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2007 sem sigur Keflavíkur fer yfir 10 stig í Ljónagryfjunni í deildarkeppninni.
Graves og Damon fóru illa með Njarðvíkinga í kvöld, Graves með 20 stig og 5 fráköst og Damon með myndarlega tvennu, 20 stig og 12 fráköst. Þá átti Davíð Páll Hermannsson góðar rispur sem og Valur Orri Valsson og Guðmundur Jónsson. Hjá Njarðvík kom Ágúst Orra sterkur inn í fjórða leikhluta en heilt yfir var frammistaða hjá lykilmönnum á borð við Loga, Mirko og Dustin engan veginn nægilega góð.
Frammistaða Keflavíkur í öðrum og þriðja leikhluta var mögnuð, þeir fóru samtals 45-15 og þar með var björninn unninn, það tók sem sagt Keflavík 20 mínútur að afgreiða granna sína. Að öllum líkindum sjáum við ekki aftur svona frammistöðu hjá grænum utan við þriggja stiga línuna, aðeins 16% nýting í kvöld sem er á pari við tvær verstu frammistöður deildarinnar til þessa í viðureignum Keflavíkur og KR og svo Stjörnunnar og Grindavíkur þar sem Keflavík og Stjarnan voru í kringum 16% nýtinguna.
Njarðvík-Keflavík 74-86 (21-21, 6-24, 9-21, 38-20)
Njarðvík: Dustin Salisbery 22/7 fráköst, Ágúst Orrason 18, Logi Gunnarsson 14, Hjörtur Hrafn Einarsson 10/4 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 6/11 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 4, Snorri Hrafnkelsson 0, Rúnar Ingi Erlingsson 0/4 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Ólafur Aron Ingvason 0, Oddur Birnir Pétursson 0.
Keflavík: William Thomas Graves VI 20/5 fráköst, Damon Johnson 20/12 fráköst, Valur Orri Valsson 15, Davíð Páll Hermannsson 10, Guðmundur Jónsson 10, Reggie Dupree 6, Eysteinn Bjarni Ævarsson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2/6 fráköst, Gunnar Einarsson 0, Aron Freyr Eyjólfsson 0, Arnar Freyr Jónsson 0/4 fráköst/6 stolnir, Andrés Kristleifsson 0.
Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson
Staðan í deildinni
Deildarkeppni
Nr. | Lið | L | U | T | S | Stig/Fen | Stg í L/Fen m | Heima s/t | Úti s/t | Stig heima s/f | Stig úti s/f | Síðustu 5 | Síð 10 | Form liðs | Heima í röð | Úti í röð | JL |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1. | KR | 5 | 5 | 0 | 10 | 488/393 | 97.6/78.6 | 3/0 | 2/0 | 101.7/80.0 | 91.5/76.5 | 5/0 | 5/0 | +5 | +3 | +2 | 0/0 |
2. | Haukar | 5 | 4 | 1 | 8 | 465/398 | 93.0/79.6 | 3/0 | 1/1 | 97.0/73.7 | 87.0/88.5 | 4/1 | 4/1 | -1 | +3 | -1 | 1/0 |
3. | Tindastóll | 5 | 4 | 1 | 8 | 462/426 | 92.4/85.2 | 2/0 | 2/1 | 98.0/82.5 | 88.7/87.0 | 4/1 | 4/1 | +2 | +2 | +1 | 1/0 |
4. | Keflavík | 5 | 3 | 2 | 6 | 381/383 | 76.2/76.6 | 1/1 | 2/1 | 75.0/82.0 | 77.0/73.0 | 3/2 | 3/2 | +1 | -1 | +1 | 1/1 |
5. | Stjarnan | 5 | 3 | 2 | 6 | 442/412 | 88.4/82.4 | 2/1 | 1/1 | 92.0/82.7 | 83.0/82.0 | 3/2 | 3/2 | +3 | +2 | +1 | 0/1 |
Fréttir |