Þeir sem bjuggust við jöfnum og spennandi leik á milli erkifjendanna úr Grindavík og Keflavík í HS orku-höllinni urðu eflaust fyrir nokkru sjokki – og þá sérstaklega Grindvíkingar – því eftir fyrsta leikhluta höfðu gestirnir skorað 39 stig gegn 7 stigum heimamanna! Það er rannsóknarefni hvort það hafi gerst áður í úrvalsdeildinni að llð skori einungis 7 stig í fyrsta leikhluta. Verkefni fyrir Óskar Ófeig Jónsson tölfræðisnilling Íslands.
Úrslitin voru ráðin eftir fyrsta leikhluta, eins og áður sagði, en lokatölur urðu 82-115.
Keflvíkingar mættu tilbúnir til leiks en Grindvíkingar voru ansi langt frá því, og eftir því sem gestirnir léku betur og betur léku heimamenn verr og verr og pirringur og nöldur fór að gera vart við sig hjá þeim í aðstæðum sem gerði stöðuna einungis verri. Og við því máttu þeir alls ekki.
Þrátt fyrir góða rispu Grindvíkinga í upphafi annars leikhluta þá má hreinlega segja að eftir að Keflvíkingar svöruðu því áhlaupi mjög fljótlega að megnið af öðrum leikhluta og allur síðari hálfleikurinn hafi verið “ruslatími” og lítið annað.Getumunurinn á þessum liðum í leiknum var geigvænlegur; Keflvíkingar voru tilbúnir í slaginn og náðu eiginlega strax að komast inn í hausinn á Grindvíkingum og slá þá útaf laginu andlega sem og líkamlega.
Keflavík er besta lið landsins og það sýndu þeir með stæl í þessum leik. Varnarleikurinn og sóknarleikurinn var til algjörrar fyrirmyndar og það er mikill stöðugleiki og sjálfstraust í liðinu auk þess sem liðinu er stjórnað frábærlega af bekknum. Það verður snúið að stöðva Keflvíkinga á þessu leiktímabili, hvort sem er í deildinni, bikarnum eða í úrslitakeppninni.
Það er í raun óþarfi að nefna einhverja leikmenn umfram aðra; liðið gekk eins og nýsmurð vél og sú olía sem sett var á hana er af dýrustu gerð.
Það er lítið hægt að segja um leik Grindvíkinga; þeir voru hræðilega lélegir í þessum leik og áttu þetta tap svo sannarlega skilið, og leikmenn liðsins og þjálfarar vita það manna best. Grindavík er gott lið – vel skipað, en þá skortir miklu, miklu betra jafnvægi. Liðið leikur skínandi vel í sumum leikjum en svo koma of margir slakir leikir hjá þeim. Gremja og tuð þjálfara liðsins, Daníels Guðna Guðmundssonar, er ekki að bæta leik liðsins, og það væri ekki vitlaust hjá honum að draga úr þessu, því þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem hann lætur svona á hliðarlínunni; það eru engin verðlaun fyrir hegðun sem þessa, þvert á móti.
Ps: Dominykas Milka komst aftur léttilega inn í hausinn á Joonasi Jarvelainen og sagan endurtók sig frá fyrri leik liðanna í Keflavík – Joonas var rekinn úr húsi eftir átök við Milka, sem glotti við tönn.
Umfjöllun, viðtöl / Svanur Snorrason