spot_img
HomeFréttirKeflavík einum leik frá úrslitaeinvíginu

Keflavík einum leik frá úrslitaeinvíginu

 
Keflavík náði forystu í einvíginu gegn KR með baráttusigri í Keflavík í kvöld. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en KR byrjaði leikinn betur og komust í 8-0 en Keflavík komst yfir í stöðunni 11-10 og eftir það leiddi lið KR aðeins einu sinni í leiknum. Keflavík náði mest 20 stiga forskoti í leiknum en KR náði því niður í 2 stig með flottum þriðja leikhluta en Keflavík svaraði því í fjórða leikhluta og hafði á endanum 12 stiga sigur.
Stigahæst í liði Keflavíkur var Bryndís Guðmundsdóttir með 18 stig en næstar voru Birna Valgarðsdóttir með 17 stig og Ingibjörg Jakobsdóttir með 14 stig.
Hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 19 stig en næstar voru Hildur Sigurðardóttir og Melissa Ann Jelterna með 12 stig hvor en Melissa hirti einnig 16 fráköst í leiknum.
 
Það gekk lítið sem ekkert í sóknarleik Keflavíkur í upphafi leiks. Meira að segja galopin skot hittu ekki einu sinni hringinn og KR nýtti sér þessa slöku byrjun heimamanna og höfðu náð 8 stiga forskoti þegar 4 mínútur voru liðnar af leiknum, 0-8. Það var ekki fyrr en nýr leikmaður Keflavíkur, Lisa Karcic skoraði fyrstu stigin stuttu sienna sem þær duttu í gang. Þegar leikhlutinn var svo hálfnaður höfðu þær náð muninum niður í 2 stig, 8-10. Bryndís Guðmunsdóttir kom þeim svo yfir í fyrsta skiptið í leiknum af vítalínunni stuttu sienna, 11-10. Liðin skiptust á að leiða leikinn næstu mínútur en það var Keflavík sem stóð betur þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta, 15-12.
 
Marin Rós Karlsdóttir byrjaði annan leikhlut af krafti fyrir Keflavík og kom þeim í 18-12 með laglegum þristi úr horninu. Keflavík virtist vera búið að loka á alla sóknartilburði gestana og gengu á lagið. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta var munurinn kominn upp í 9 sitg, 21-12. Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, tók því leikhlé stuttu seinna, 23-12. KR hafði ekki skorað stig í öðrum leikhluta gegn 8 stigum heimamanna sem var algjör viðsnúningur frá fyrsta leikhluta. Þegar 16 mínútur voru liðnar af leiknum var forskot Keflavíkur komið upp í 17 stig, 31-14, og fátt sem virtist geta stoppað þær. Viðsnúningurinn frá fyrstu mínútunum var algjör og áhorfendur í húsinu voru farnir að taka vel við sér og studdu sitt lið. Melissa Ann Jelterna sem dró vagninn sóknarlega fyrir KR í seinasta leik fann sig engan vegin og hafði aðeins skorað 2 stig þegar Hrafn tók annað leikhlé KR þegar það voru tæplega þrjár og hálf mínúta eftir af fyrri hálfleik, 34-15. Þetta leikhlé virtist hins vegar kveikja í KR liðinu sem skoraði 6 stig gegn 1 stigi Keflavíkur á næstu mínútu og var munurinn kominn niður í 14 stig, 35-21, þegar Jón Halldór Eðvaldsson tók leikhlé fyrri Keflavík. Ekki var Jón Halldór ánægður með afrakstur leikhlésins því aðeins um 40 sekúndunm seinna tók hann aftur leikhlé, 35-23. Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Keflavík yfir, 38-25.
 
Stigahæst í hálfleik fyrir Keflavík var Bryndís Guðmundsdóttir með 8 stig en næstar voru hnífjafnar Ingibjörg Jakobsdóttir og Lisa Karcic með 7 stig hvor. Hjá KR voru Hildur Sigurðardóttir og Melissa Ann Jelterna jafnar með 6 stig hvor en næstar voru Guðrún Gróa Þorstseinsdóttir og Margrét Kara Sturludóttir með 4 stig hvor.
 
Athygli vakti að KR-ingarnir Margrét Kara, Guðrún Gróa og Melissa Ann voru komnar mjög fljótt út á völl að skjóta á meðan liðið ræddi málin inní klefa í hálfleik.
 
Þriðji leikhluti byrjaði af miklum krafti og bæði lið komu sjóðandi heit út. Þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar var munurinn 13 stig, 44-31, en liðin þá skorað 6 stig hvort og nánast öll skot ofaní. Leikurinn var orðinn galopinn og munaði aðeins 8 stigum á liðunum á tímabili. Hraðinn hafði aukist gríðalegar frá því í öðrum leikhluta og hlutirnir því fljótir að gerast. Þegar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta munaði 10 stigum á liðunum, 48-38. Stuttu seinna tók Hrafn Kristjánsson leikhlé fyrir KR. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur en á seinustu tveimur mínútunum skoraði KR 8 stig gegn 3 stigum Keflavíkur og munaði því aðeins 5 stigum á liðunum þegar einn leikhluti var eftir af leiknum, 53-48.
 
Keflavík skoraði fyrstu stig fjórða leikhluta þegar tvær mínútur voru liðnar af honum og KR svaraði um hæl. Margrét Kara setti svo glæsilegan þrist strax í næstu sókn og munurinn orðinn 2 stig, 55-53. Melissa Ann Jelterna fékk sína fimmtu villu þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta og skildi eftir stórt skarð í liði KR. Hún hafði þá skorað 12 stig og hirt heil 14 fráköst. KR varð fyrir öðru áfalli stuttu seinna þegar Helga Einarsdóttir fékk sína fimmtu villu og var því einnig send á bekkinn.

Þrátt fyrir þrjár tilraunir tókst KR ekki að jafna leikinn og þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum stal Birna Valgarðsdóttir boltanum og brunaði fram til þess að koma Keflavík aftur 4 stigum yfir, 57-53. KR svaraði á hinum enda vallarins en Bryndís Guðmundsdóttir setti niður þrist stuttu seinna og munurinn var kominn aftur upp í 5 stig. Keflavík lét þristunum rigna yfir KR og næst var það Ingibjörg Jakobsdóttir sem kom Keflavík 8 stigum yfir þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum. Þá tók Hrafn Kristjánsson leikhlé, 63-55. Það var svo ekki aftur snúið þegar Lisa Karcic kom Keflavík í 12 stiga forksot þegar rétt rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leiknum, 68-56. Keflavík lék á alls oddi og stemmingin var alsráðandi. Þegar tvær mínútur voru eftir tók Hrafn leikhlé fyrir KR en munurinn var 12 stig sem var jafn mikið og KR skoraði í öllum fyrsta leikhluta og útlitið því ekki bjart fyrir gestina. Það gekk hins vegar lítið hjá KR að minnka muninn og á endanum hafði Keflavík 12 stiga sigur, 76-64.

 
Heildarskor:
 
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 18/5 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ingibjörg Jakobsdóttir 14, Lisa Karcic 12/12 fráköst/6 stolnir/4 varin skot, Hrund Jóhannsdóttir 5/4 fráköst, Marina Caran 5/4 fráköst, Marín Rós Karlsdóttir 3/4 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 2/6 fráköst/5 stoðsendingar, Lovísa Falsdóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0, Hrönn Þorgrímsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
 
KR: Margrét Kara Sturludóttir 19/6 fráköst, Melissa Ann Jeltema 12/14 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 12/9 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9/9 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 7, Signý Hermannsdóttir 4/7 fráköst, Helga Einarsdóttir 1, Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir 0, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 0, Sigríður Elísa Eiríksdóttir 0, Aðalheiður Ragna Óladóttir 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski [email protected]
 
Umfjöllun/ Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -