spot_img
HomeFréttirKeflavík b sigraði 1. deildina

Keflavík b sigraði 1. deildina


B-lið Keflavíkur með sigurlaun sín á laugardag
Keflavík b tryggði sér á laugardag sigur í 1. deild kvenna með sigri á Njarðvík 74-65 í framlengdum leik.  Leikurinn var gríðarlega jafn og skiptust liðin á forystunni. Undir lok leiks höfðu Njarðvík 4 stiga forystu en Keflavík náðu að komast einu stigi yfir.


Anna María Ævarsdóttir átti svo möguleika á að stela sigrinum með vítaskotum á síðustu sekúndum leiksins en hitti aðeins úr öðru og því var framlengt.  Keflavíkurliðið var töluvert sterkara í framlengingunni og varnarleikur þeirra þar tryggði þeim að lokum sigur í leiknum og þar með í deildinni. 

 Jón Guðmundsson er þjálfari liðsins og var að vonum gríðarlega sáttur í leiks lok. "Þessar stúlkur eru ótrúlegar og árangur þeirra í vetur er frábær. Get ekki sagt annað en að ég er bara nokkuð montinn að vera þjálfari þeirra og taka þátt í þessu öllu. Þetta lið er byggt upp af stúlkum í 10. flokki sem Magga Stull (Margrét Sturlaugsdóttir) hefur þjálfað síðustu ár með góðum árangri og er styrkt með nokkrum stelpum sem eru í stúlknaflokki. Framtíðin er vægast sagt frábær í kvenna körfunni hér í Keflavík. " sagði Jón eftir leik.  Lið Keflavíkur b mun þó líkast til ekki taka sæti í úrvalsdeildinni.

Keflavík verður seint sakað um að sinna ekki kvennastarfi körfunnar nægilega vel en árangur félagsins á þeim slóðum er hreint út sagt ótrúlegur og allt stefnir í að félagið muni hirða megnið af  þeim titlum sem í boði eru í kvennaboltanum hér á landi.

Fréttir
- Auglýsing -