Eins og á svo mörgum öðrum vígstöðum hafa orðið ansi miklar breytingar á Íslandsmeisturum KR en Páll Kolbeinsson tók við liðinu í sumar og er þetta í fyrsta sinn sem hann stjórnar úrvalsdeilarliði þar sem hann er ekki spilandi þjálfari. Páll hefur fengið það vandasama verkefni að setja saman KR lið sem hefur mátt sjá á eftir bestu leikmönnum Íslands á einu færibandi og þar ber helst að nefna þá Jón Arnór, Jakob Örn og Helga Má. Karfan.is tók púlsinn á Páli Kolbeinssyni sem boðaði breyttar áherslur í leik KR liðsins.
,,Við vorum topplið í fyrra og við ætlum okkur að vera í toppbaráttunni í ár, það er metnaður í Vesturbænum og við erum hrokafullir og leiðinlegir,“ sagði Páll Kolbeinsson léttur í bragði þegar Karfan.is sló á þráðinn. Páll gerðist þó öllu alvarlegri þegar hann var inntur eftir því hvernig gengið hefði með KR-liðið síðan hann tók við búinu af Benedikti Guðmundssyni.
,,Sumarið gekk ágætlega, því miður vorum við ekki eins margir að æfa í sumar eins og ég hefði viljað. Það eru reyndar lykilmenn búnir að æfa vel eins og Darri, Brynjar og Finnur en þeir hafa lyft vel og bætt á sig, sömuleiðis Jón Orri. Aðrir hafa verið að týnast inn á síðustu vikum og við þurfum því miður að fylla skörðin með útlendingum þar sem við misstum fjóra af toppleikmönnum okkar frá síðasta ári,“ sagði Páll en að meðtöldum Jóni, Jakobi og Helga hélt Pálmi Freyr Sigurgeirsson í Hólminn og mun leika með Snæfell í vetur.
,,Við höfðum samband við aðra íslenska leikmenn og sem betur fer fyrir þeirra félög vildu þeir vera áfram á heimaslóðum og því urðum við að leita erlendis,“ sagði Páll sem boðar aðrar leikáherslur hjá KR í ljósi breytinganna á leikmannahópnum.
,,Við verðum með stærra lið og þurfum að stóla á strákana okkar í teignum og það sást á móti Njarðvík að við vorum veikir í bakvarðastöðunni. Semaj Inge er á leið til landsins öðru hvoru megin við helgina en við sjáum bara hvernig hann mun koma út og hvernig liðið virkar með honum,“ sagði Páll og viðurkenndi að það hefði angrað sig mikið í leiknum gegn Njarðvík á dögunum úrræðaleysi KR í bakvarðastöðunum.
,,Ég var að missa þolinmæðina og fékk tæknivíti í þessum fyrsta leik mínum. Ég var ekkert pirraður út í dómgæsluna eða neitt svoleiðis heldur út í okkar spilamennsku og ég vona bara að Inge sé skemmtilegur leikmaður og geri okkur kleift að mæta sterkir til leiks,“ sagði Páll sem á von á jafnari úrvalsdeild þessa leiktíðina heldur en var uppi á teningnum í fyrra.
,,Það er erfitt að átta sig á þessu en Grindvíkingar eru jafn sterkir ef ekki sterkari en í fyrra og þá eru Njarðvíkingar sterkir og Snæfellingar verða erfiðir heim að sækja. Það er metnaður í Garðabæ og Breiðholti og maður veit að leikmenn eins og Sveinbjörn Claessen og Hreggviður Magnússon eru svangir í mikla hluti. Kalli í Tindastól er líka með fínt lið en þá vantaði miðherja gegn okkur og lentu því í vandræðum með stóru mennina okkar. Það er ljóst að menn eiga eftir að tapa stigum hér og þar í vetur,“ sagði Páll en þeir félagar í Vesturbænum hafa síðustu ár lagt mikla vinnu í umgjörð leikjanna hjá KR. Páll sagði að engin breyting yrði þar á bæ.
,,Ég hef unnið hér með Böðvari Guðjónssyni síðan 2006 og við höfum alltaf ætlað að standa okkur, við unnum tvo titla með Benedikt sem þjálfara og erum enn staðráðnir í að standa okkur. Menn reyna alltaf að gera betur í umgjörðinni en það verður erfitt að toppa síðasta ár þar sem stemmningin í kringum íslensku leikmennina okkar var mikið með t.d. Jón Arnór, Jakob og Helga innanborðs. Kannski bryddum við upp á meiri hlutum tengdum fjölskylduskemmtunum að þessu sinni en menn eru alltaf að finna upp á einhverju nýju og ég vona að hin liðin geri svipaða hluti. Þá vona ég bara að fólki finnist áfram gaman að koma til okkar,“ sagði Páll og bætti við að velgengnin síðustu tímabil hefði verið hjálpleg til ýmissa verka.
,,Þannig höfum við getað styrkt liðið okkar og góður stuðningur áhorfenda sem og styrk stjórn veldur því að menn keppast við að gera betur,“ sagði Páll sem er í fyrsta sinn á hliðarlínunni sem aðalþjálfari. ,,Ég var reyndar með á æfingu í gærkvöldi, það var ekki gott, ég á ekki að gera þetta því þetta eru sterkir strákar hérna,“ sagði Páll léttur í bragði.