spot_img
HomeFréttirKarim með stórleik í Stólasigri

Karim með stórleik í Stólasigri

22:46 

{mosimage}

 

 

(Mynd úr leik Tindastóls og Njarðvíkur fyrr á tímabilinu) 

 

Tindastóll vann í kvöld sinn fyrsta sigur í Iceland Express deildinni í langan tíma í síðasta leik ársins þegar Fjölnir kom í heimsókn. Stólarnir tefldu fram nýjum leikmanni í kvöld, Vladimir Vujcic að nafni, en hann var fenginn til að leysa Steve Parillon af hólmi, sem var látinn fara fyrir nokkru.

 

Það var greinilegt að Zeko var mættur í kvöld til að láta til sín taka, hann skoraði

fyrstu 4 stigin í leiknum og reif niður fráköst af miklum móð. Síðan tók Lamar við

keflinu og skoraði 10 stig í 1. leikhluta. Fjölnismenn vöknuðu fljótlega og komust

yfir um miðjan leikhlutan fyrir tilstilli Kareem Johnson sem skoraði þá 8 stig í

röð. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 18-21.

 

Stólarnir jöfnuðu 30-30 í öðrum leikhluta, en þá komu 10 stig frá Fjölni og staðan 30-40. Þeir skoruðu m.a. 7 stig í einni sókn, skoruðu þriggja stiga körfu, fengu dæmda tæknivillu á Lamar Tindastólsmann, skoruðu úr báðum vítunum og fengu svo boltann og skoruðu tvö stig. Stólarnir tóku sig þá á og komu til baka hægt og sígandi allt til hálfleiks og jöfnuðu fyrir hlé en þá var staðan orðin 47-47.

 

Liðin skiptust svo á að hafa forystu allan þriðja leikhlutann, en Stólarnir áttu tvær síðustu körfurnar í fjórðungnum og leiddu með þremur stigum 66-63. Stólarnir tóku svo völdin smátt og smátt í síðasta leikhlutanum, mest fyrir stórleik Lamars og góðrar varnar liðsins. Lamar skoraði 17 stig í leikhlutanum og Fjölnismenn  náðu ekki að finna réttu leiðina í gegnum vörn heimamanna, þrátt fyrir góða takta Bárðs þjálfara á hliðarlínunni og leikhlé sem hann tók. Í stöðunni 78-71 setti Svavar niður erfiðan þrist við mikinn fögnuð áhorfanda, þrjár mínútur til leiksloka og munurinn kominn í 10 stig. Við þetta virtust Fjölnismenn missa móðinn og Stólarnir komu muninum í 15 stig, 88-73.

 

Leikurinn fjaraði svo út og munurinn var 12 stig í lokin, 96-84. Eins og svo oft áður léku heimamenn vel fyrstu þrjá fjórðungana, en nú kláruðu þeir allan leikinn og stóð allt liðið vel fyrir sínu þó Lamar og Zeko færu fremstir. Ísak átti góðan leik að vanda, en Svavar hefur oft látið meira að sér kveða í sóknarleiknum. Helgi Rafn átti fínan leik, var með 7 fráköst og sex stig og barðist vel í vörninni.

 

Kareem Johnson og Hörður A. Vilhjálmsson voru stigahæstir Fjölnismanna. Hörður sem var þarna að spila sinn fyrsta leik fyrir Fjölnir eftir að hann kom heim frá Spáni reyndi kannski fullmikið í leiknum og var ekki með góða nýtingu þrátt fyrir stigin 22. Johnson var erfiður í teignum fyrir heimamenn á köflum, en Nemanja Sovic átti ekki góðan leik í kvöld og réð oft lítið við hraðann í leiknum og skoraði aðeins 4 stig og

munar um minna.

 

Lamar Karim gerði 33 stig í leiknum fyrir Tindastól og Kareem Johnson setti 24 fyrir Fjölni.

 

Texti: Jóhann S

 

Myndir úr leiknum koma síðar…

Fréttir
- Auglýsing -