spot_img
HomeFréttirKarfan.is spá: IE kvk

Karfan.is spá: IE kvk

Spekingar karfan.is settust niður yfir kaffibolla ekki alls fyrir löngu og rýndu í kristalskúlur sínar, allt gert til að vega og meta stöðu liða í Iceland Express deild kvenna fyrir komandi tímabil.
 
Ekki skeikar miklu á spá spekinganna og spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í Iceland Express deild kvenna, en Haukar og Grindavík hafa sætaskipti. Viðbót erlendra leikmanna getur þó breytt miklu á skömmum tíma. KR er þó spáð efsta sætinu með fullt hús stiga, en miðað við þessa spá má gera ráð fyrir að verkefni Unndórs og Njarðvíkurstúlkna verði ærið.
 
Það hefur verið nokkuð um félagaskipti og margir sterkir leikmenn skipt um búning fyrir tímabilið, en þar ber helst að nefna brottför landsliðsfyrirliðans, Signýjar Hermannsdóttur, er hún skipti úr Val yfir í KR. Aðrir landsliðsmenn hafa einnig skipt um vettvang og hafa KR og Hamar helst notið góðs af því.
 
Hvað svo sem öllum spám líður, þá er ljóst að spennandi leiktímabil hefst í kvöld í Iceland Express deild kvenna með þremur leikjum þegar nýliðar Njarðvíkur taka á móti KR, Snæfellsstúlkur sækja Val heim á Hlíðarenda og Hamar og Keflavík eigast við í Hveragerði. Fyrstu umferð lýkur svo annað kvöld þegar Haukar og Grindavík mætast á Ásvöllum, en allir leikirnir hefjast kl. 19:15.
 
KR 72
Hamar 62
Keflavík 53
Haukar 46
UMFG 34
Valur 26
Snæfell 21
Njarðvík 10
 
Snorri Örn Arnaldsson
 
Fréttir
- Auglýsing -