spot_img
HomeFréttirKarfa góð eða ekki? * UPPFÆRT *

Karfa góð eða ekki? * UPPFÆRT *

 
Íslenska A-landsliðið tapaði naumlega fyrir Búlgörum í Laugardalshöll í gær. Jón Arnór Stefánsson, langbesti leikmaður íslenska liðsins í þessum leik, náði að koma sniðskoti að körfunni til að jafna leikinn á lokasekúndunum sem var svo slegið af hringnum af varnarmanni gestanna. Í fyrstu virtist þetta vera klárt dæmi um knatttruflun að mati undirritaðs og að karfa yrði dæmd góð og gild en dómarar leiksins virtust ekki vera á öðru máli. Við nánari skoðun eru reglur FIBA eilítið loðnar þegar kemur að þessu atriði.
 
Skottruflun (e. goaltending) er samkvæmt reglum FIBA þegar leikmaður snertir boltann þegar hann er algerlega fyrir ofan hringinn og a) er á niðurleið í átt að körfunni og b) eftir að hann hefur snert körfuspjaldið. Samkvæmt reglu 31.2.3 eiga þessi tvö atriði við þar til a) boltinn getur ekki lengur mögulega endað ofan í körfunni eða b) þegar boltinn hefur snert hringinn.
 
Ekki var um skot að ræða sem var stöðvað á niðurleið eða fyrir ofan hringinn og boltinn hafði snert hringinn eftir að hann snerti spjaldið. Ekki er hins vegar hægt að útiloka að boltinn hefði getað endað í körfunni. Sem færir okkur að næsta atriði.
 
Truflun (e. interference) felur í sér mörg atriði sem talin eru upp í reglununum, en það sem hér á við er þetta: “Varnarmaður snertir knöttinn eða körfuna þegar knöttur er innan körfunnar og snertingin veldur því að knöttur fer ekki ofaní körfuna.”  Þetta er væntanlega túlkun FIBA á sívalnings-reglunni í bandarískum körfubolta. Hún segir að óleyfilegt sé að snerta boltann sé hann fyrir ofan hringinn og innan ímyndaðs sívalnings sem myndast upp úr körfuhringnum.
 
Boltinn hafði snert hringinn og var á niðurleið úr því frákasti af hringnum. Endursýning sjónvarpsins gat ekki sýnt nægilega vel hvar boltinn var staðsettur þegar varnarmaður Búlgaríu slær hann í burtu en ekki var heldur hægt að segja (út frá sjónarhornum sjónvarpsins) að hann hafi verið án nokkurs vafa kominn út fyrir hringinn eða sívalninginn. Dómarar leiksins leyfðu varnarliðinu samt sem áður að njóta vafans og dæmdu ekkert.
 
Flautan gall ekki fyrr en boltinn hafði verið sleginn af hringnum en ef leikurinn hefði endað um leið og Jón Arnór sleppti boltanum er reglubókin mun skýrari samkvæmt reglu 31.2.5 en hún segir: “Skal enginn leikmaður snerta knöttinn eftir að hann hefur snert hringinn og á enn möguleika á að fara í körfuna.”
 
* UPPFÆRT *
 
Í samtali við FIBA dómara í dag fékkst það staðfest að leyfilegt er að slá boltann frá eftir að hann hefur snert hringinn hvort sem hann er í sívalningnum eða ekki. Miðað við það voru þessi viðbrögð dómaranna rétt. Hins vegar er það rétt að hafi leiktími verið liðinn (hvort sem í leikslok eða í lok fjórðungs) má enginn snerta boltann á meðan hann er í loftinu líkt og fram kemur hér að framan.
Fréttir
- Auglýsing -