07:00
{mosimage}
(Margrét Kara Sturludóttir)
Íslandsmeistarar Keflavíkur mega sætta sig við mikla blóðtöku fyrir næstu leiktíð þar sem Margrét Kara Sturludóttir hefur ákveðið að hefja nám í Bandaríkjunum ásamt því að spila körfuknattleik. Karfan.is náði í Margréti Köru sem segir Bandaríkjaævintýrið leggjast vel í sig og að hún hafi verið dugleg undanfarið að fræðast um þessi mál hjá vinkonu sinni úr Keflavík, Maríu Ben Erlingsdóttur, sem leikur með UTPA í Bandaríkjunum.
,,Skólinn heitir Elon University og er í North Carolina. Liðið heitir Phoenix og er í D1. Liðinu hefur gengið ágætlega, endaði um miðja deild síðast. En nú í sumar var skipt um allt þjálfarateymið og það á að leggja meiri metnað í allt saman,” sagði Kara sem lék 24 deildarleiki með Keflavík á síðustu leiktíð og gerði í þeim að jafnaði 12,2 stig.
,,Þetta leggst bara mjög vel í mig, frábært tækifæri sem er einfaldlega ekki hægt að sleppa. Þetta verður bara spennandi ævintýri. Maður er auðvitað búin að fylgjast vel með Maríu og Helenu í vetur og ég er búin að vera ansi dugleg að spyrja Maju vinkonu um Ameríku núna nýlega,” sagði Kara sem fékk ekki leyfi hjá skólanum til þess að vera með í Evrópuverkefnum íslenska kvennalandsliðisins.
,,Ég fékk því miður ekki leyfi frá skólanum til þess að vera með í verkefnunum. Það er auðvitað mjög leiðinlegt að missa af Evrópukeppninni. En ég náði Norðurlandamótinu sem var mjög gaman þótt úrslitin fóru ekki eins og óskað var eftir. Landsliðið er búið að æfa rosalega vel í allt sumar og er ég viss um að stelpurnar eigi eftir að standa sig vel,” sagði Kara sem líkast til mun leggja stund við læknisfræði í skólanum ytra. En hvernig líst henni nú á Keflavíkurliðið sem hún kveður í bili?
,,Mér líst mjög vel á Keflavík, auðvitað mjög svekkjandi að fá ekki að verja titlana með þeim í vetur, ég á eftir að fylgjast vel með þeim og óska þeim alls hins besta. Þær eru með sterkt lið og ætla sér stóra hluti.”