Chris Kaman hjá LA Clippers hefur verið valinn til að leysa Brandon Roy, bakvörð Portland Trail Blazers af í Stjörnuliði Vesturstrandarinnar en Stjörnuleikurinn árlegi fer fram í Dallas um næstu helgi.
Roy hefur glímt við þrálát meiðsli í læri síðustu vikur og afsakaði sig því frá þátttöku í leiknum, en hann hafði verið valinn sem varamaður í leikinn í þriðja skiptið í röð.
Kaman hefur átt frábært tímabil frá einstaklingssjónarmiði séð þar sem hann er með um 20 stig og 9 fráköst að meðaltali í leik, en hann er loks að ná að halda sér af meiðslalistanum eftir tvö erfið ár.